Jafnvel hörðustu áhugamenn um þjóðfélags- og efnahagsmál hafa gott af því að taka sér algert frí frá því að fylgjast með fréttum. Lét pistlahöfundur það eftir sér í mánaðarlöngu ferðalagi sínu um níu lönd Evrópu að taka sér nánast algert frí frá því að fylgjast með.

Þó var ekki komist hjá því einn daginn þegar keyrt var um hið frábæra vegakerfi Sviss, sem hlykkist um ægifagra fjallgarða landsins, að heyra hvað hæst var á baugi í fréttum landsins.

Aðalfrétt dagsins var sú að naumur meirihluti 2.067 kjósenda samþykkti gegn 1.930 kjósendum á móti, að byggðarlagið Moutier myndi kljúfa sig frá kantónunni Bern, þar sem höfuðborgin er og meirihlutinn talar þýsku, og sameinast frönskumælandi málbræðrum sínum í nýjustu kantónu Sviss, Jura.

Í Sviss skiptir gríðarlegu máli í hvaða kantónu íbúar búa, enda eru þau misvel rekin, með mismunandi háa skatta- og þjónustustig, enda er hlutverk alríkisstjórnarinnar mun minna en almennt gerist í flestum sambandsríkjum og vald íbúanna í hverri kantónu yfir eigin málum mun meira en víðast hvar þekkist.

Stjórnkerfi Sviss ætti að vera fyrirmynd allra sem berja sér á brjóst og telja sig vera sérstaka talsmenn lýðræðis, eins og sumir stjórnmálaflokkar hérlendis gera, en einhvern veginn virðist það vera meira í orði en á borði.

Því þrátt fyrir fagurgala um meira lýðræði, þjóðaratkvæðagreiðslur og annað virðist ekki sem ráðamenn hérlendis, hvar í flokki sem þeir standa, treysti íslenskum almenningi til að taka ákvörðun um eigin málefni að sama skapi og Svisslendingum er treyst fyrir.

Ég sé til að mynda ekki að Grafarvogsbúum og Kjalnesingum yrði gefinn kostur á að kljúfa sig frá Reykjavík, þó að skoðanakannanir myndu ítrekað sýna vilja íbúanna til þess. Kæmi það að minnsta kosti á óvart ef yfirlýst lýðræðisprinsipp stjórnarmeirihlutans í borginni myndu ekki gleymast ef sterk krafa um að fá að kjósa um aðskilnað kæmi fram.

Nýlegt dæmi um vantraust þeirra sem halda um stjórnartaumana um ákvarðanir almennings kom til að mynda fram í hugmyndum um að nýtt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá myndi ekki ná til ákvarð- ana um skatta- og þjóðréttarmál. Einmitt þau málefni sem mestu skiptir máli að almenningur geti sett stjórnmálaelítunni skorður, líkt og sást í Icesave-kosningunni.

Kannski óttast stjórnmálamenn að Íslendingar myndu læra af Svisslendingum og setja takmarkanir á getu þeirra til að skattleggja og eyða fé almennings, eins og íbúar Sviss hafa ítrekað samþykkt inn í stjórnarskrá sína. Eða að þingmönnum verði gert að vinna alvöru vinnu samhliða þingstörfum. Er nema von að Sviss sé eitt best rekna ríki heims?