*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Jakob Falur Garðarsson
9. maí 2017 11:33

Lyfjaverslun ríkisins?

Útgjöld til kaupa á lyfjum fyrir heilbrigðiskerfið voru vanáætlaðar og þrátt fyrir samþykkt um að stoppa í gatið bólar ekki á viðbótarfjármagni.

Haraldur Guðjónsson

Vandræðagangur hefur einkennt framgöngu heilbrigðisyfirvalda að undanförnu á ýmsum sviðum. Eitt mál tengist verulega vanáætluðum útgjöldum til kaupa á lyfjum fyrir heilbrigðiskerfið. Ríkisstjórnin samþykkti í febrúar að stoppa í gatið. Síðan hafa vikurnar liðið og enn bólar ekki á samþykktu viðbótarfjármagni. Loks tilkynnti heilbrigðisráðherra nú fyrir helgi að á allra næstu dögum kæmist einhver hreyfing á. Sem veit á gott.

Um leið sagði ráherra til skoðunar að fara í sameiginleg útboð við kaup á lyfjum með nágrannalöndunum. Sú hugmynd er ekki ný af nálinni og voru nýverið gerðar breytingar á lögum um opinber innkaup sem auka möguleika Landspítalans á að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um lyfjakaup.

En ástæða er til að vara við mögulegum hliðaráhrifum vanhugsaðra áætlana hins opinbera um aukið alþjóðlegt samstarf við útboð lyfjakaupa. Ekki hefur farið fram nokkur greining á þeim áhrifum sem slíkt samstarf kann að hafa á íslensk fyrirtæki, samkeppnisumhverfi þeirra og framtíðarþjónustu við íslenskt heilbrigðiskerfi.

Innlendi markaðurinn og þá sér í lagi Landspítalinn hefur getað treyst á að fá hjá innlendum fyrirtækjum alla almenna þjónustu varðandi lyfjakaup og eftirfylgni með þeim, svo sem fræðslu til heilbrigðisstarfsfólks, leiðbeiningar um notkun lyfja og svör við fyrirspurnum vegna undanþága og aukaverkana, auk þess sem reglulega er brugðist við beiðnum um neyðarsendingar. Leiða má að því líkum að þessi þjónusta verði í uppnámi hér á landi verði bein innkaup Landspítalans erlendis frá að veruleika.

Innflutnings- og aðfangakeðja lyfja er flókin og viðkvæm. Ætli hið opinbera, þá að öllum líkindum Landspítalinn, að fara í innkaup sem þessi þarf að óbreyttu að vekja til lífsins Lyfjaverslun ríkisins. Enginn ágreiningur er gerður um að heilbrigðiskerfið reyni að fá sín aðföng á sem hagkvæmastan hátt, en lágmarkskrafa er að fyrir liggi hver áhrifin verða af breyttu verklagi. Því er kallað eftir greiningu á áhrifum þessara breytinga áður en slagur verður látinn standa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Frumtaka, samtaka frumlyfjaframleiðenda á Íslandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.