Hér var í liðinni viku minnst á það hvernig Fréttablaðið félli ítrekað í freistni og birti falsaðar skýringarmyndir og sagnfræðilega tölfræði um útbreiðslu sína. Dálkinum bárust af því tilefni skilaboð úr Skaptahlíð, þar sem klaufaskap var borið við og bætt við að fleiri miðlum hefði nú orðið það á að birta eitthvað bogið um útbreiðsluna.

Jújú, flónska er skárri en fals, en ekkert miklu skárri. Og manni finnst einkennilegt að útbreiddasta blað landsins geri ekki meiri kröfur til sjálfs sín.

***

Hitt er örugglega rétt athugað að fleiri miðlum en Fréttablaðinu eru mislagðar hendur við hallamálið. Á vorum vondum dögum vefmælinga og smelludólga á það sjálfsagt enn frekar við, því menn hafa beina hagsmuni af því að beygla mælingarnar. Við hvern smell dettur klink í kassann.

Það eru til fleiri ráð, eins og að kaupa sér kynningu á félagsmiðlum á borð við Facebook og Twitter, sem vafalaust skilar sér í fleiri smellum. Þannig sá fjölmiðlarýnir það um daginn að Ríkisútvarpið var farið að kaupa sér „spons“ á Facebook, sem kom honum nokkuð á óvart. Ríkisútvarpið heldur vissulega úti fréttavef (sem var haldið úti ólöglega um árabil), en að það væri farið að hasla sér völl á nýjum samkeppnisvettvangi var honum ókunnugt um.

***

En það má ganga lengra en það. Úti í hinum stóra heimi má þannig kaupa eða leigja sér fylgjendur og lækendur á Facebook og Twitter. Sem er varla sá lestur, sem auglýsendur hafa í huga.

Vefmælingar á Íslandi hafa lengst af verið í höndum Modernus, en ekki alls fyrir löngu tók Gallup að ryðja sér rúms á þeim sama markaði og þangað hafa ýmsir af mest lesnu vefjum landsins snúið sér. Hjá Modernus er hins vegar talsverður fjöldi vefja í viðskiptum og ævinlega forvitnilegt að skoða listann hjá þeim. Fjölmiðlarýnir hnaut þó fljótlega um ótrúlega velgengni vefjar Útvarps Sögu, sem nú blandar sér reglulega í toppslaginn á lista Modernus.

Þetta var ekki alltaf svo. Fram á mitt ár í fyrra voru vikulegir notendur yfirleitt í kringum 5.000 talsins, stundum eilítið meira og stundum minna, en vefurinn er oft á milli 40.-50. sætis. Hlutfall innlendrar notkunar var afar svipað því, sem gerist hjá flestum íslenskum vefjum, í námunda við 90%, enda miðast allt efni við íslenska lesendur.

Síðari hluta árs í fyrra fór þetta hins vegar að breytast töluvert, því þá tók notendum að fjölga verulega. Á hinn bóginn minnkaði hlutfall innlendra notenda ákaflega á sama tíma, svo kalla má hrun. Þannig hefur þetta verið síðan, en í liðinni viku var fjöldi notenda á Útvarpi Sögu 37.429 og utvarpsaga.is samkvæmt mælingu Modernus 9. vinsælasti vefur landsins!

Þegar notendurnir eru skoðaðir nánar kemur í ljós að innlent hlutfall var aðeins 12,7%. Sem sé 87,3% notenda kom erlendis frá. Ef við reiknum úr þessum tölum eru innlendir notendur 4.753, sem er afar svipað og raunin var áður en stöðin fór að rjúka upp listann í fyrra.

Afleiðingin er sú að Útvarp Saga er orðinn einn stærsti „erlendi“ vefur landsins með einna mesta erlenda umferð íslenskra vefja og skákar stundum vefjum eins og Iceland Review og Grapevine, sem eru sérstaklega ætlaðir útlendingum og framreiða allt sitt efni á ensku.

Þetta er vitaskuld út í bláinn eins og hver maður sér, þegar grannt er skoðað. Hins vegar verður ekki séð að nokkur hafi hreyft andmælum við þessu og Útvarp Saga kemst bara upp með ruglið, sem Modernus birtir svo viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, án nokkurra athugasemda. En það getur enginn sagt að Útvarpi Sögu sé í nöp við útlendinga!

***

Fjölmiðlarýnir las mikla ádrepu eftir Karl Garðarsson, þingmann og gamlan kollega, þar sem hann fann að vinnubrögðum Ríkisútvarpsins vegna þeirra mála, sem hæst hafa glumið um fjárreiður forsætisráðherrafrúarinnar.

Karl taldi upp ýmsa viðmælendur fréttastofunnar undanfarna daga og benti á að þar hefði ótrúlegur fjöldi andstæðinga Framsóknarflokksins fengið greiðan aðgang til þess að tala illa um formann hans og forsætisráðherra. Aðrir bentu hins vegar á að þrír þingmenn Framsóknarflokksins hefðu komist að hljóð- nemanum þessa daga og því væri þetta ekkert mál.

Karl hefur talsvert til síns máls, aðallega þó vegna þess að Ríkis- útvarpið talaði við flesta þessara pólitísku rótara líkt og þeir væru hlutlausir fræðimenn og álitsgjafar. Sem er hreint ekki tilfellið. Á hinn bóginn fer framsóknarmönnum ekki að kvarta alveg svona hátt meðan forsætisráðherra gefur ekki kost á viðtali.

Pistill Andrésar birtist í Viðskiptablaðinu 23. mars 2016.