Það er stundum sagt um frelsið að það glatist sjaldnast allt í einu, heldur sé hættan fremur sú hvernig á það er saxað jafnt og þétt, svo fáir taki eftir eða andæfi hverju því hænuskrefi. Það sé sjaldnast fyrr en um seinan, sem menn taki eftir því hvernig það hefur allt verið tekið. Yfirleitt af þeim öllum. Og oftar en ekki allt af hinum bestu hvötum; hæg er leið til heljar, vörðuð góðum ásetningi og allt það.

* * *

Í liðinni viku féll dómur í héraðsdómi í máli Kristins Sigurjónssonar gegn Háskólanum í Reykjavík (HR), sem sagði honum upp í kjölfar ummæla um konur á vinnustöðum, sem hann lét falla í lokuðum umræðuhóp á Facebook og DV greindi frá samdægurs. Niðurstaða Hildar Briem dómara var að Kristinn hefði engar bætur að sækja til HR, skólinn hefði ekkert rangt gert með því að láta hann fara fyrirvaralaust.

Nú er málið flóknara en að ofan greinir, það varðar m.a. réttindi opinberra starfsmanna og flutning þeirra við það að stofnun þeirra breytist eða störfin færist til einkafyrirtækja. Um það verður ekki rætt hér, heldur hitt sem lýtur að málfrelsinu, aðkomu fjölmiðla og þar fram eftir götum.

Þær skoðanir, sem Kristinn lét í ljós, eru sennilega ekki algengar og alls ekki vinsælar, enda telja margir ef ekki flestir að þær séu markaðar fordómum í garð kvenna. Kom þó fyrir ekki að hann skyldi benda á það í réttarhaldinu að aðrir starfsmenn skólans hefðu orðið berir að fordómum í garð karla án þess að hljóta tiltal fyrir hvað þá uppsögn.

Af dómsorðinu virðist ljóst vera að dómarinn telur hann eiga að njóta minni réttarverndar vegna þess að umræddar skoðanir séu rangar eða vondar. Þar er því fullkomlega litið hjá grunninntaki allra málfrelsisákvæða í lögum, stjórnarskrá og alþjóðlegum sáttmálum, sem er að þau eru einmitt sett til verndar óvenjulegum skoðunum, jafnvel röngum og vondum. Það á við á öllum tímum og ekki síður nú, þegar dómharka vegna skoðana virðist mjög færast í aukana.

* * *

Nú er það ekki til þess að auðvelda umræðu um þennan dóm að rökstuðningur dómarans og reifun er að mörgu leyti afar loðin, að ekki sé sagt grautarleg. Sumt afar hæpið, alveg burtséð frá því hvað manni kann að finnast um hin upphaflegu ummæli Kristins.

Þannig er farin nokkuð löng leið til þess að sýna fram á að ummælin hafi verið opinber, þó þau hafi fallið í lokuðum hópi, þar sem honum hafi mátt vera ljóst að þau gætu ratað í fjölmiðla, eins og síðan gerðist nánast samstundis. Jafnframt er nefnt að birting DV hafi svona nánast verið fullframin opinber ummæli, án þess að ljóst sé hvernig eða hvar menn geti vænst þess að tala opinskátt og í trúnaði, hvað þá undir hvaða kringumstæðum menn megi eða eigi að vænast þess að þurfa að bera á þeim ábyrgð, svo sem með starfsmissi.

Þetta skiptir verulegu máli, því bæði í Hitlers-Þýskalandi og Sovétblokkinni voru margvísleg málfrelsisákvæði í lögum, sem enginn naut þó í neinu einmitt vegna þess að beitt var alls kyns öðrum ráðum til þess að þagga niður í lýðnum, svo sem með því að vera settir í vinnubann, vera fundnir sekir um andfélagslega hegðun, nú eða bara úrskurðaðir kolruglaðir og sendir í sérstök „geðveikrahæli“. Ef menn voru ekki bara látnir hverfa.

Kjarni málsins er þó sá, að í dómnum er úrskurðað að þegar DV birtir ummæli, sem maður skrifar í lokuðum Facebookhópi, skapist hjá einkafyrirtækjum réttur og lýðræðisleg nauðsyn til að takmarka tjáningarfrelsi eins, til að vernda réttindi annarra, svo sem samstarfsfólks, „til að upplifa að [fyrirtækið starfi] í reynd eftir gildum jafnréttis“.

* * *

Dr. Lára Magnúsardóttir skrifaði lítið eitt um þetta á Facebook:

Ef þjóðfélagið ætti að standa á öndinni yfir einhverju, þá væri það að þessi þvættingur skuli koma frá dómsvaldinu. En fjölmiðlarnir hafa annað að gera og virðast ekki hafa innanborðs þekkingu til að átta sig á að einmitt þarna skapast lýðræðinu alvöru hætta.

Hún ætti að vita hvað hún talar um, því doktorsritgerð hennar fjallaði einmitt um bannfæringar og kirkjurétt á miðöldum. Eru menn langt frá því myrkri þegar sumar skoðanir eru lýstar óleyfilegar með þessum hætti?

* * *

Svo er annað mál, sem er þáttur fjölmiðilsins í þessu. Ef dómsvaldið er farið að kveða upp dóma með þessum hætti, eiga þeir þá að voga sér að hafa eftir það sem fólk hefur að segja ef þetta eru afleiðingarnar? Og hvað um þá hættu að fjölmiðlar geri slíkt, einmitt í þeim tilgangi?

* * *

Þetta tengist ef til vill annarri nýlegri umræðu, sem er Klausturfokkið illræmda. Þar voru alls kyns ömurleg orð viðhöfð um menn og málefni, en alveg örugglega í trausti þess að þau voru sögð í einhverskonar trúnaði í fámennum hóp. Engum dettur í hug að kjaftaklúbburinn á Klaustri hefði sagt þetta upphátt á opinberum vettvangi. Einmitt þess vegna þótti fólki svo fróðlegt að lesa þar sem þar var sagt, vegna þess að það var hlerað og fjölmiðlar ljóstruðu svo upp um það.

Þau orð hafa síðan haft afleiðingar, bæði pólitískar og með opinberum ákúrum að ekki sé sagt dómum siðanefndar Alþingis.

Umrædd orð verða ekki aftur tekin frekar en birtingin á þeim, hvað svo sem mönnum þykir um sjálfa hlerunina eða ákvörðun fjölmiðla að birta samtölin að hluta eða heild. En fjölmiðlarýnir leyfir sér að fullyrða að allir umræddir fjölmiðlar hafa dregið sína lærdóma af þessu fordæmalausa máli, sem bar mjög brátt að (og samkeppnin hörð), og myndu haga vinnubrögðunum að mörgu leyti öðru vísi ef annað eins kæmi upp. Áfram með hagsmuni almennings í huga, en án vafa af meiri tillitssemi við þá sem um ræddi og einkalíf þeirra.

* * *

Það er vafalaust að verða tímabært að ræða það opinskátt, en í ljósi fyrrnefnds héraðsdóms þarf augljóslega að taka þau mál fyrir á breiðari grundvelli. Það þurfa bæði fjölmiðlar, fjölmiðlamenn og almenningur að gera, en í þessu tiltekna máli er bráðnauðsynlegt að æðri dómstig fjalli þar um. Ekki vegna Kristins þessa Sigurjónssonar, heldur vegna málfrelsisins og og frjáls samfélags breyskra manna.