Í október hefst meistaramánuður á ný. Þátttakendum er í raun frjálst að setja sér hvaða markmið sem er, en hefðbundna nálgunin felst í betra mataræði, meiri hreyfingu, að vakna fyrr á morgnana og að neyta ekki áfengis. Í grunninn er hugsunin samt sú að nota mánuðinn til að bæta sig á einhvern hátt með því að setja sér markmið og standa við þau. Meistaramánuðurinn snýst ekki bara um að taka vel á því í ræktinni eða taka til í mataræðinu heldur líka litlu hlutina eins og að eyða meiri tíma með fjölskyldunni eða lesa loksins bókina sem þú ætlaðir þér alltaf að lesa, eins og segir á vefsíðunni meistaramanudur.is.

Einhvern tímann hefði ég hnussað yfir einhverju svona, kallað þetta hjarðhegðun og spurt af hverju fólk væri að bíða fram í október ef það á annað borð hefði hug á að breyta líferninu. Af hverju ekki bara að byrja í ágúst eða september?

Ég er breyttur maður núna og hnussa ekki. Ég breytti reyndar mataræðinu í mars í ár án þess að þar kæmi nokkur meistaramánuður nærri og hef náð sæmilegum árangri þannig. Ég hef hins vegar ekki enn stigið næsta skref í átt að meiri hreyfingu. Ég hef margoft sagt við sjálfan mig og aðra að ég ætli að fara að hreyfa mig meira, en ekkert hefur orðið úr því. Fyrirbæri eins og Meistaramánuður er spark í rassinn á fólki eins og mér, sem hefur lengi verið á leiðinni að gera eitthvað í sínum málum.

Í bókaheiminum er nóvember svipaður mánuður, en hann er í Bandaríkjunum kallaður National Novel Writing Month (NaNoWriMo), en þátttakendur eiga að skrifa 50.000 orða skáldsögu í mánuðinum. Sama á við um þennan mánuð og Meistaramánuðinn okkar. Það má skrifa bækur í öðrum mánuðum, en fyrir þá sem eru búnir að ganga með bókina í maganum mjög lengi getur NaNoWriMo verið sparkið sem þeir þurfa á að halda.

Besta hugsanlega niðurstaða fyrir þá sem taka þátt í Meistaramánuðinum er að lífsstílsbreytingin verði varanleg, en jafnvel þótt sú verði ekki raunin er margt erfiðara en að halda fýsnunum í skefjum í fjórar vikur.

Pistill Bjarna birtist í Viðskiptablaðinu 26. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .