Sérfræðingar og vísindafólk á Veðurstofu Ísland telja að viðvarandi niðurskurðaraðgerðir geti valdið verulegri og varanlegri röskun á getu Veðurstofu Íslands til þess að sinna brýnum og lögbundnum skyldum sínum.

Veðurstofunni er gert að mæta tæplega 130 milljóna króna uppsöfnuðum halla og var meðal annars brugðist við með uppsögnum þriggja starfsmanna, minni yfirvinnu og frestun verkefna. Í yfirlýsingu sérfræðinga og vísindafólks Veðurstofunnar er niðurskurðarkröfu stjórnvalda mótmælt.

Frétt Ríkisútvarpsins 29. mars 2022

* * *

Fyrirsögn fréttar fréttastofu Ríkisútvarpsins sem vitnað er í hér að ofan var „Niðurskurður geti valdið varanlegri röskun".

Í fréttinni er birt yfirlýsing frá „sérfræðingum og vísindafólki" sem starfar á Veðurstofunni. Þau segja að fjárframlög hafi ekki mætt auknum umsvifum grunnþjónustu Veðurstofunnar, álag á starfsfólk hafi stóraukist og viðhald á tækjabúnaði og nauðsynleg uppbygging hafi setið á hakanum. Segir í yfirlýsingunni að stefnt hafi í óefni jafnvel áður en niðurskurðarkrafan barst. Starfsmenn veðurstofunnar segja einnig í yfirlýsingunni:

Mörgum sinnum á ári skapast aðstæður í náttúrunni sem myndu lama ýmis önnur samfélög. Hér höfum við hins vegar lært að lifa með óblíðri náttúru í gegnum aldirnar og þróað þann lærdóm samfara breytingum á samfélaginu. Einn mikilvægasti þátturinn í viðbrögðum okkar við náttúruvá er að sjá fyrir náttúruhamfarir og bregðast við í tíma.

Veðurstofa Íslands hefur m.a. það mikilvæga hlutverk að vakta náttúruna í þeim tilgangi að sjá fyrir og vara tímanlega við mögulegri vá sem getur hlotist af veðri, jarðskjálftum, eldgosum, snjóflóðum, skriðum og vatnsflóðum.

* * *

Stóraukinn kostnaður

Þar sem ríkisfjölmiðillinn fær aðeins 5 milljarða á ári frá skattgreiðendum þá ákvað Óðinn að aðstoða fréttastofuna og kanna hvernig fjárframlögin til Veðurstofunnar hafa þróast síðustu árin. Sú skoðun nær allt til ársins 1995 en ársskýrslur stofnunarinnar eru einmitt aðgengilegar á vef hennar aftur til þess tíma.

Árið 1995 kostaði reksturinn 1.074 milljónir króna að núvirði. Árið 2022 gera fjárlögin ráð fyrir að kostnaðurinn við stofnunina verði 3.077 milljónir króna. Með öðrum orðum þá hefur rekstrarkostnaðurinn þrefaldast - á föstu verðlagi.

Árið 2009 tók Veðurstofan við verkefnum vatnamælinga Orkustofnunar. Það skýrir stökkið á rekstrarkostnaði milli áranna 2008 og 2009, eða um tæp 26%. Segjum að það sé einmitt það hlutfall sem vatnamælingarnar kosta stofnunina, að þá hefur rekstrarkostnaðurinn ekki hækkað um 286% heldur 227%.

* * *

Fastráðnir starfsmenn stofnunarinnar voru í kringum 120 árið 2009 en 146 árið 2019. Að auki eru tugir starfsmanna í hlutastarfi við eftirlits- og veðurathuganir, alls 64 árið 2019.

Sami forstjórinn hefur verið á stofnuninni síðan 2008, eða í um fjórtán ár. Hann var áður forstöðumaður Vatnamælinga Orkustofnunar. Forstjórinn er doktor í vatnaverkfræði.

Óðinn veltir fyrir sér hvers vegna doktor í vatnaverkfræði veljist sem forstjóri í stofnun sem kostar 3 milljarða í rekstri á ári. Er það ekki jafn undarlegt og að læknir veljist forstjóri Landspítala?

* * *

Það verður þó að viðurkennast að þótt tilefni þessa pistils sé frétt Ríkisútvarpsins þá hefur Veðurstofan ekki fengið sömu athygli og Landspítali í fréttum ríkisfjölmiðilsins.

En þegar ársskýrslur stofnunarinnar eru lesnar þá sést að stofnunin kveinkar sér mjög undan „lágum" fjárframlögum frá skattgreiðendum. Hérna má sjá sjónarmið forstjórans í ársskýrslunni frá árinu 2012:

Eftir þrjú alvarleg niðurskurðarár voru fjárveitingar á árinu ívið lægri en árið á undan. Veðurstofan bjó að góðu og gat mætt niðurskurði að hluta til með því að ganga á höfuðstól, og með því að viðbótarkostnaður vegna gosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum var bættur. Það dugði þó ekki til. Til þess að mæta markmiðum settum í byrjun árs 2010 um jafnvægi í rekstri Veðurstofunnar á árinu 2012 varð að grípa til sársaukafullra aðhaldsaðgerða á fyrri hluta ársins sem fólu meðal annars í sér uppsagnir. Með nýjum rannsóknarverkefnum, breyttum áherslum í rekstri og stífum aðhaldsaðgerðum hefur tekist að ná rekstri Veðurstofunnar í jafnvægi.

Það er auðvitað fullkomið rugl þegar horft er til reksturs veðurstofunnar að þar hafi verið nokkur niðurskurður. Þvert á móti virðast starfsmennirnir með forstjórann í broddi fylkingar geta sótt fjármuni í vasa skattgreiðenda án mikillar fyrirstöðu.

Því er algjörlega fráleitt af forstjóranum og starfsmönnunum að tala um alvarleg niðurskurðarár, stífar aðhaldsaðgerðir, viðvarandi niðurskurð, varanlega röskun, svo vitnað sé í þeirra orð.

* * *

Töluverður hluti rekstrar Veðurstofunnar er rekinn með greiðslum frá Alþjóðaflugmálastofnuninni og styrkjum.

Um styrkina má til dæmis sjá í inngangi frá forstjóra í ársskýrslu vegna ársins 2017.

Enn einu sinni hafa sérfræðingar Veðurstofunnar náð frábærum árangri í að afla rannsóknastyrkja. Hæst ber verkefnið EUROVOLC en það er rannsóknarinnviðaverkefni í eldfjallafræði, styrkt af Horizon 2020 rammaáætlun ESB. Verkefnið leiðir Kristín S. Vogfjörð, en hún hefur um árabil staðið í forystu umsókna sem skilað hafa hundruðum milljóna til uppbyggingar innviða á Íslandi og þekkingar. Verkefnið er styrkt um 630 millj. kr.

* * *

Ætti að bjóða reksturinn út

Það má velta fyrir hvort rétt sé að þessi rekstur eigi heima á ríkisstofnun. Einnig má velta fyrir sér hvort rétt sé að bjóða hreinlega út rekstur ríkisstofnunarinnar í heild sinni í ljósi þess hver stór hluti rekstursins tengist öðru en verkefnum samkvæmt lögum. Þá gæti sá sem hreppir rekstrarframlagið frá ríkissjóði sótt enn frekar fram í tengdri starfsemi og sótt styrki sem aldrei fyrr úr opinberum sjóðum erlendis, líkt og sjóðum Evrópusambandsins.

* * *

Nú liggur fyrir að rekstrarkostnaður Veðurstofunnar hefur meira en tvöfaldast frá árinu 1995 að raunvirði. Fyrir því kunna að vera einhverjar ástæður, jafnvel málefnalegar. En það breytir því ekki að umfang rekstursins hefur stóraukist.

Það eru svipuð rök fyrir hluta starfsemi Veðurstofunnar og fjármálaeftirlitsins, að koma í veg fyrir búsifjar á Íslandi. En Óðinn vill minna það ágæta fólk sem starfar í þessum eftirlitsiðnaði að fjármálaeftirlit kemur ekki í veg fyrir gjaldþrot banka og veðurstofur koma ekki í veg fyrir eyðileggingu af völdum náttúruhamfara.

Það er hins vegar sjálfsagt að hafa skilvirkt eftirlit með hvoru tveggja en spurningin er sú þegar báðar stofnanir hafa blásið út, á ekki svo mörgum árum, hvort of langt sé gengið.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .