Nú undir lok árs sjáum við skýr merki sama hvert litið er; efnahagsumsvifin eru meiri og skuldastaðan betri en við gerðum ráð fyrir. Afkoma ríkissjóðs batnar um 120 milljarða milli ára og skuldahorfur eru um 300 milljörðum betri horft til næstu fimm ára en áætlað var.

Frá síðustu áramótum hefur atvinnuleysi dregist hratt saman og er á svipuðum slóðum og fyrir faraldurinn. Störf eru 20 þúsund fleiri nú en í upphafi árs. Kaupmáttur vex stöðugt og hefur aldrei verið meiri. Vextir eru lágir í sögulegu samhengi og tekist hefur að halda verðbólgu innan þolanlegra marka.

Þetta eru hlutirnir sem öllu máli skipta. Öflugt atvinnulíf er undirstaða áframhaldandi velferðar og efnahagslegur stöðugleiki er forsenda þess að miklar kjarabætur heimilanna undanfarin ár verði varanlegar.

Áætlunin gekk upp
Saga ársins sem nú er að líða er til marks um að áætlunin gekk upp. Sú áætlun var skýr allt frá upphafi; við ætluðum að vaxa út úr vandanum, frekar en að skera niður og hækka skatta. Gera meira frekar en minna, í þeirri trú að mikil tímabundin útgjöld myndu skila sér þegar upp væri staðið.

Stærsta verkefnið á nýju kjörtímabili verður að verja árangur síðustu mánaða og sækja fram. Öflug viðbrögð þegar á reyndi byggðu á traustum grunni síðustu ára. Samhliða bjartari horfum verður verkefnið að vinda ofan af hallanum og treysta grunninn á nýjan leik.

Vel heppnuð sala á 35% eignarhlut í Íslandsbanka hefur skipt miklu máli. Með skráningu og sölu tókst að tryggja ríkissjóði gott verð, tryggja dreifða eignaraðild og aðkomu almennings – á sama tíma og verðmæti eftirstandandi hlutar ríkisins jókst umtalsvert. Fjárfestingarkostum almennings fjölgar og þátttaka almennra fjárfesta á markaði hefur stóraukist.

Með áframhaldandi sölu á kjörtímabilinu færum við fjármuni úr áhætturekstri yfir í uppbyggingu innviða og niðurgreiðslu skulda um leið og við færum íslenskt bankaumhverfi nær því sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.

Tækifærin í vandamálunum
Það er segin saga að pólitísk umræða vill oft hverfast um nýjar leiðir til að eyða peningum, en minna um hvernig eigi að búa þá til. Sumir líta jafnvel á það sem sjálfstætt vandamál að útgjöld aukist ekki verulega til hinna ýmsu málaflokka.

Það var rétt ákvörðun að beita ríkisfjármálunum af krafti þegar faraldurinn skall á og sú stefna hefur stuðlað að öflugri viðspyrnu. Nú er hins vegar mikilvægt að útgjaldavöxtur verði hóflegur og til þess fallinn að styðja við ábyrga hagstjórn.

Breytt staða kallar sömuleiðis á að við sjáum tækifærin í vandamálunum, frekar en vandamálin í tækifærunum. Það felast enda fjölmörg tækifæri í að bæta og nútímavæða opinbera þjónustu og nýta á sama tíma peninga skattgreiðenda betur.

Það er grundvallaratriði í sáttmála nýrrar ríkisstjórnar að nýta tæknibyltinguna til að sækja fram þvert á svið samfélagsins og veita betri, aðgengilegri og hagkvæmari þjónustu. Með öflugri fjarheilbrigðisþjónustu færum við þjónustuna nær fólki í dreifðum byggðum um allt land, stafrænt pósthólf sparar tíma, pappír og peninga og með rafrænum þinglýsingum verða fjölmörg ferli ódýrari og aðgengilegri fyrir alla sem að þeim koma. Áfram mætti lengi telja. Áform um áframhaldandi sókn á þessu sviði endurspeglast í fjárlagafrumvarpi ársins 2022, ekki síst í áframhaldandi fjárfestingu og eflingu Stafræns Íslands.

Nýjar stoðir
Það er líka hlutverk stjórnvalda að stuðla að jarðvegi nýrra tækifæra, en kórónukreppan reyndist dýrmæt áminning um mikilvægi fjölbreyttra stoða efnahagslífsins. Nýsköpun og hugverkaiðnaður hefur vaxið hratt síðustu ár og má með sanni segja að þar sé að verða til fjórða stoðin undir íslenskan efnahag. Samhliða fjölbreyttum skattahvötum, hærri endurgreiðslum rannsókna- og þróunarkostnaðar o.fl. jukust útflutningstekjur í greininni úr tæpum 80 milljörðum árið 2013 í um 160 milljarða 2020. Stuðlað verður að enn meiri vexti á komandi árum.

Við eigum mikið inni í rótgrónari atvinnugreinum og munum halda áfram að hlúa að þeim. Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr í heiminum þegar kemur að verðmætasköpun, hagkvæmni og nýtingu afurða þar sem fjölbreyttar vörur eru framleiddar og seldar um víða veröld úr öllum hlutum aflans. Tækifærin í nýtingu hreinnar endurnýjanlegrar orku eru óþrjótandi, hvort sem kemur að orkuskiptum, uppbyggingu umhverfisvæns iðnaðar og loftslagsvænna lausna eða útflutningi á íslensku hugviti. Ómæld tækifæri felast í íslenskri ferðaþjónustu og eftir því sem heimurinn loks opnast í auknum mæli fer ferðamönnum fjölgandi, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á samfélagið allt. Áfram mætti lengi telja.

Við erum vel menntuð og framsækin þjóð, rík af auðlindum, hugmyndum og hæfileikaríku fólki. Grunnurinn er traustur og jarðvegurinn frjór. Það er full ástæða til að horfa björtum augum til komandi ára, enda eru tækifærin á hverju strái. Það er okkar að grípa þau.

Höfundur er fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.