Yfirskrift Viðskiptaþings í ár „Hið opinbera: Hvernig get ég aðstoðað?“ minnti mig á hvað ég hugsaði fyrir rúmum fjórum árum þegar ég – sem hef alla tíð unnið í einkageiranum – ákvað að gerast opinber starfsmaður. Aldrei hafði það hvarflað að mér að það gæti verið rökrétt næsta skref eða góð hugmynd að vinna hjá ríkinu. Líklega töldu flestir vinir og kunningjar að ég hefði farið röngu megin fram úr rúminu daginn sem ég tilkynnti að ég væri orðinn ríkisstarfsmaður – en þetta var frábær tími með öflugum hópi samstarfsfólks þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Ég bjó yfir reynslu sem ég taldi að gæti gagnast og mig langaði til að aðstoða við að koma Íslandi í fremstu röð í heiminum í stafrænni þróun á sambærilegan hátt og aðrar smáþjóðir á borð við Eistland hafa gert. Það lá því við að leggja mitt af mörkum og taka nokkurs konar „tour of duty“ fyrir Ísland eins og Reid Hoffmann, stofnandi og fyrrum yfirmaður minn hjá LinkedIn, hefði orðað það.

Markmiðið var að hjálpa til, moka nokkra stafræna skafla fyrir ríkið og afhenda svo keflið áfram þegar búið væri að þróa aðferðarfræði sem gæti virkað áfram. Ég horfi stoltur yfir þann tíma sem ég leiddi Stafrænt Ísland. Á þessum tíma ruddum við brautina fyrir stafræna umbreytingu ríkisins sem ætti að skila okkur öllum betri þjónustu og hagkvæmari ríkisrekstri – þó auðvitað sé enn af nægu af taka.

Stafrænar lausnir sem einfalda líf fólks

Við settum í loftið nýjan vef fyrir Ísland.is og sameinuðum vefsíður tugi ríkisstofnana í stað þess að hver þeirra þurfi að þróa, reka og stýra sínum eigin vef með tilheyrandi kostnaði. Við erum lítil þjóð og það er því í raun galið að nýta samrekstur í upplýsingatækni ríkisins ekki betur en nú er gert. Að ekki sé minnst á hagræðið sem felst í því fyrir almenning að geta gengið að öllum upplýsingum hins opinbera vísum á einum stað. Þá sameinuðum við alla stafræna þjónustu Sýslumanna á einn stað, settum í loftið stafrænt ökuskírteini, umsókn um fæðingarorlof, rafrænar þinglýsingar og svo mætti áfram telja. Ísland er í dag komið í hóp fimm efstu þjóða í heiminum í stafrænni opinberri stjórnsýslu skv. samanburði Sameinuðu þjóðanna.

Til að ná þessum árangri á tiltölulega stuttum tíma þurfti að hugsa hlutina upp á nýtt og brjótast út úr hefðbundnum viðjum margra opinberra verkefna þar sem ábyrgð er óskýr og fólk veigrar sér við að taka ákvarðanir og gera mistök. Þessi kokteill ábyrgðarleysis, mistakafælni og ákvarðanakvíða er hinn eitraði kokteill ríkisins sem fyrirfinnst alltof víða í kerfinu og útskýrir mikla sóun og óskilvirkni.

20 teymi frá einkageiranum

Stafrænt Ísland, sem er hluti af fjármálaráðuneytinu, nýtti krafta einkaframtaksins með því að ráða 20 þróunarteymi frá einkaaðilum. Í gegnum stór útboð, sem vakið hafa mikla athygli út fyrir landsteinana, var lagður grundvöllur að hraðri og skilvirkri framkvæmd þar sem stór og smá hugbúnaðarfyrirtæki unnu saman að verkefnum fyrir ríkið í opnum hugbúnaðarkóða. Þannig var og er yfirbygging Stafræns Íslands pínulítil, eða um 10-12 starfsmenn, en áhrifin margföld þvert á allar stofnanir ríkisins. Að mínu mati er hér komið módel sem þarf að skala upp þvert á ríkið: Verkefnastofur með lítilli yfirbyggingu, sem hafa umboð til athafna og fjármagn til framkvæmda í gegnum útboð til einkafyrirtækja. Það eru fjölmargar hugmyndir að leiðum til að halda áfram á svipaðri braut. Það er til að mynda augljóst tækifæri að sameina allar upplýsingatæknideildir hinna ýmsu heilbrigðisstofnana undir einn stafrænan heilbrigðiskjarna að fyrirmynd Stafræns Íslands. Auka samrekstur og láta einkaframtakið sinna framkvæmdinni að stóru leyti.

Önnur hugmynd er að fyrirmynd Finnlands, en þar var farin sú leið að sameina þeirra stofnanir sambærilegar við Þjóðskrá, Sýslumenn og Stafrænt Ísland í eina öfluga stafræna þjónustustofnun sem sinnti þjónustuhlutverki fyrir allar stofnanir ríkisins. Ein sameiginleg framlína í stafrænum og hliðrænum heimi.

Þriðja hugmyndin er að fyrirmynd frænda okkar í Færeyjum sem töldu einleikið að í svona litlu landi ættu ríkið og sveitarfélög að vinna betur saman og nýta sameiginlegan þjónustuvef ríkisins (sambærilegan við Ísland.is) í stað þess að hvert sveitarfélag væri á sinni eigin vegferð í misgóðum takti við ríkið.

Fjárfestum í íslensku hugviti

Með því að nýta smæðina okkar sem styrkleika, eigum við að geta haldið áfram á þessari braut og komist upp að hlið vina okkar í Eistlandi sem hafa að mörgu leyti rutt brautina. Mesta snilldin hjá Eistum var þó ekki aðeins hvernig þeir hafa þorað að verða leiðandi í stafrænni opinberri þjónustu – allt frá því að kjósa rafrænt í yfir áratug og bjóða erlendum borgurum og fyrirtækjum upp á raf-ríkisborgararétt – heldur einnig hvernig þeir hafa nýtt þessa þróun hins opinbera til að leggja grunninn að fjárfestingum og árangri einkageirans í nýsköpun, tækni og útflutningi á hugviti á heimsmælikvarða.

Eistnesk fyrirtæki sem unnu að stafrænni þjónustu hins opinbera fara nú víða um heim og selja öðrum þjóðum og fyrirtækjum sambærilega tækni og þjónustu. Íslensk fyrirtæki ættu hæglega að geta gert hið sama. Samhliða þessari hröðu tæknibyltingu hefur Eistland jafnframt stimplað sig inn sem eitt öflugasta land í heimi, í hlutfalli við stærð, þegar kemur að fjárfestingu í sprotafyrirtækjum, nýsköpun og tækni.

Mikil tækifæri felast í áframhaldandi stafrænni umbreytingu samfélagsins, tækninýjungum og nýsköpun. Hugverkaiðnaðurinn nálgast það óðfluga að verða fjórðungur af útflutningstekjum Íslands og ekki sér fyrir endann á þeim vexti, enda er íslenskt hugvit auðlind sem getur vaxið án takmarkana. Til að grípa þau tækifæri og skipa sér við hlið vina okkar frá Eistlandi þarf hið opinbera að nýta krafta einkaframtaksins áfram með markvissum hætti og atvinnulífið þarf jafnframt að aðstoða hið opinbera þar sem mögulegt er – það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra.