*

laugardagur, 30. maí 2020
Jóhannes Þór Skúlason
21. september 2019 13:43

Öflugur rekstur – aukin samkeppnishæfni

„Í dag er það því samfélagslega ábyrgt að ríki og sveitarfélög grípi öll tækifæri til lækkunar á opinberum kostnaði í fyrirtækjarekstri“

Haraldur Guðjónsson

Ýmislegt hefur verið skeggrætt um fjölda ferðamanna í sumar, enda líklega fáar þjóðir sem fá eins nákvæmar reglulegar fréttir af því hve margir hafi stimplað sig inn í landið í hverjum mánuði miðað við árið í fyrra. Og það lítur út fyrir að fjöldinn verði í samræmi við spár, um 300 þúsund manns færri en í fyrra.

En þá er ekki öll sagan sögð. Í greiningum að undanförnu hefur til dæmis komið fram að hver ferðamaður skilur meiri verðmæti eftir í landinu en í fyrra og í júlí brá svo við að gistinóttum fjölgaði á öllum landshornum utan höfuðborgarsvæðisins. Og þó að verðmætaaukningin skrifist að hluta á breytt mat á sjálfskiptifarþegum og að höggið á gistirekstur á höfuðborgarsvæðinu sé um 6% er ljóst að ýmis jákvæð teikn má taka út úr sumrinu, þegar til þess er litið hvernig það hófst.

Ekki síst er það ákaflega jákvætt að ánægja ferðamanna með Ísland sem áfangastað hefur aukist verulega frá því í fyrra. Meðmælaskor Íslands hjá ferðamönnum, hlutfall ferðamanna sem vilja mæla með Íslandsferð við vini og kunningja gagnvart þeim sem mæla gegn, er nú komið í 78. Og kvarðinn er frá mínus hundrað upp í hundrað, sem sýnir hversu gífurlega vel Ísland stendur varðandi ánægju og upplifun af ferð hingað til lands. Það er mjög mikilvægt og sýnir hversu vel íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum hefur tekist að mæta óskum og væntingum ferðamanna, veita þeim góða og einstaka upplifun í samræmi við eða betri en væntingar. Það er sérstaklega ánægjulegt í samhengi þeirrar staðreyndar að Ísland er mjög dýr áfangastaður í alþjóðlegum samanburði. Þetta segir okkur því að ferðamenn telja sig vera að fá þau gæði, fagmennsku í þjónustu og upplifun sem þeir greiða fyrir.

Vondu fréttirnar
Í þessum aðstæðum, þar sem mikilvæg krafa er á fyrirtæki að auka gæði og fagmennsku, steðjar hins vegar alvarlegur vandi að þeim, sem er gríðarhár kostnaður við fyrirtækjarekstur á Íslandi. Hlutfall launa af verðmætasköpun fyrirtækja hækkar stöðugt og er í sumum greinum komið yfir 80- 90%. Það gefur auga leið að þegar aðeins tæp 10% af verðmætasköpuninni þurfa að standa undir afskriftum og hagnaði er lítið borð fyrir báru til að mæta áföllum á tekjuhliðinni, eða jafnvel aðeins til að tryggja eðlilegan og heilbrigðan rekstur.

Yfirgnæfandi meirihluti íslenska ferðaþjónustufyrirtækja eru örfyrirtæki á alþjóðamælikvarða, með innan við 10 starfsmenn. En þessi smáu og metnaðarfullu fyrirtæki standa ásamt þeim stærri undir þeirri gríðarlegu uppbyggingu sem orðið hefur á áfangastaðnum Íslandi í alþjóðlegri samkeppni á stuttum tíma. Í þeirri þróun hefur allt samfélagið notið góðs af, hvort sem litið er til áralangs jákvæðs vöru- og þjónustujöfnuðar, fjölbreyttari atvinnutækifæra, innviðauppbyggingar eða aukins kaupmáttar og stórbættra lífsgæða um allt land.

Samkeppnishæfni Íslands sem ferðaþjónustulands og uppbygging ferðaþjónustu sem sjálfbærrar atvinnugreinar með gæði og fagmennsku að leiðarljósi byggir á þessum fyrirtækjum. Byggir á því að fyrirtækin geti byggt upp heilbrigðan rekstur og fjárfest í framtíðaruppbyggingu.

Lækkun gjalda á fyrirtæki kemur öllum til góða
Í dag er það því samfélagslega ábyrgt að ríki og sveitarfélög grípi öll tækifæri til lækkunar á opinberum kostnaði í fyrirtækjarekstri, hvort sem um er að ræða tryggingagjald, fasteignagjöld á fyrirtæki, tekjuskatta, sértæka gjaldtöku eins og gistináttaskatt, þjónustugjöld, opinberar álögur á vörur og þjónustu (t.d. áfengi) eða annað. Og álagning nýrra gjalda á fyrirtæki á ekki að vera í boði ætli stjórnvöld að styðja við heilbrigt atvinnulíf og áframhaldandi uppbyggingu ferðaþjónustu um allt land, með tilheyrandi jákvæðum áhrifum fyrir allt samfélagið. Afgreiðsla fjárlaga er framundan, tækifærið er núna.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.