Mér finnst það ekki mjög fjarlæg tilhugsun að spila Call of Duty í Playstation með fjármálaráðherra. Ekki það að hann væri fyrsti maðurinn sem ég myndi hringja í þegar mig vantaði spilafélaga heldur er tilhugsunin bara alls ekki jafn fáránleg og hún virðist í fyrstu. Við búum í mjög mikilli nálægð við þá sem fara með stjórntæki þjóðarinnar, en annað væri reyndar skrítið í ljósi þess hversu fámenn við erum. Ég hef oft minnst á það við erlenda vini mína að það væri t.a.m. alls ekki fjarlæg tilhugsun að sjá forseta eða forsætisráðherra Íslands nakta vegna þess hversu sterk sundmenning okkar er. Þetta finnst þeim í senn fáránlegt en á einhvern hátt aðdáunarvert og sjá það jafnan sem eins konar birtingarmynd jöfnuðar hjá íslensku þjóðinni.

Það vekur hins vegar furðu mína oft í þessu ljósi hversu mikil heiftin getur verið í íslenskri umræðu gagnvart ráðamönnum þjóðarinnar. Það er orðin hálfgerð klisja að tala um þá sem eru „virkir í athugasemdum“ á netinu – þeirra reiði og misgáfuleg gagnrýni þeirra gagnvart stjórnmálamönnum er eitthvað sem allir eru orðnir þreyttir á. Það sem er áhugaverðara er að ræða við fólk dags daglega, utan sem og innan netheima, og sjá hversu auðvelt þeim finnst að úthrópa einhverja ónefnda ráðherra sem „hálfvita“, „glæpamenn“ eða „svikara“. Ekki það að ráðherrar eða aðrir stjórnmálamenn geri ekki mistök og ættu jafnvel undir einhverjum kringumstæðum að sinna einhverju öðru starfi. Það sem er forvitnilegt er hversu lítil virðing er borin fyrir þeim í daglegu tali. Það er mjög forvitnilegt að velta því fyrir sér af hverju við virðum ekki stjórnmálamenn.

Nálægðin gæti haft eitthvað að segja, en sú staðreynd að ég gæti séð fyrir mér sjálfan mig í tölvuspili með Bjarna Benediktssyni er ekki fullnægjandi til að útskýra af hverju fólki finnst sjálfsagt að sýna honum óvirðingu. Þetta gæti virst léttvæg hugleiðing í fyrstu en mig grunar að hún risti nokkuð djúpt. Það segir mikið um samfélag hverjir njóta virðingarstöðu innan þess. Ef við ætlum ekki að virða stjórnmálamenn, þá vona ég innilega að þeir sem njóta virðingar okkar séu raunverulega virðingarverðir.