Áárinu 2012 skipuðu stjórnvöld starfshóp embættismanna til þess að vinna tillögur að lagabreytingum til að verjast kennitöluflakki. En með kennitöluflakki er jafnan átt við ákveðna misnotkun eigenda hlutafélags í skjóli takmarkaðrar ábyrgðar eigenda á rekstri þess. Í tillögum hópsins kom meðal annars fram að viðvarandi vanskil á ársreikningum og kennitöluflakk hefði slæm áhrif á atvinnulífið, það rýrði viðskiptakjör og hækkaði viðskiptakostnað. Á þessum grunni var árið 2016 innleitt í lög um ársreikninga að félag skuli tekið til skipta á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti ef ársreikningi hefur ekki verið skilað með fullnægjandi hætti innan 8 mánaða frá því að frestur til skila rann út. Með lagasetningu 2020 var þessi skilafrestur styttur í 6 mánuði.

Þegar lagatexti leggur fortakslausa skyldu til athafna við tiltekin skilyrði á sá sem hefur skylduna á hendi ekkert val um hvort að henni sé fullnægt eður ei. Skyldunni skal einfaldlega fullnægt. Við lagasetninguna lýstu þingmenn ánægju með þann áfanga sem fælist í ákvæðinu við því að stemma stigu við kennitöluflakki óprúttinna aðila. En hvernig hefur þetta mjög svo „nauðsynlega" lagaákvæði reynst í framkvæmd ?

Á síðasta ári barst mér erindi um hagsmunagæslu frá erlendum aðila gagnvart einkahlutafélagi sem stofnað var 2016 og skuldaði verulegt fé. Við skoðun á málefnum íslenska félagsins staðfesti Skatturinn að félagið hafði aldrei skilað ársreikningi frá því að það hóf starfsemi. Blasti því við að spyrja hvers vegna ársreikningaskrá hefði ekki gripið til þeirra fortakslausu aðgerða sem kveðið væri á um í 121. grein laga um ársreikninga og krafist gjaldþrotaskipta á félaginu fyrir löngu. Í svari Skattsins kom þetta fram:

„Ákvæði núgildandi 1. mgr. 121. gr. ársreikningalaga kom inn í ársreikningalög árið 2016 með breytingalögum nr. 73/2016. Þessu ákvæði hefur hingað til ekki verið beitt. Ástæða þess er að reglugerð sú sem fjallað er um í lokamálslið greinarinnar hefur ekki enn verið sett en er í vinnslu hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. En í þessu samhengi vil ég upplýsa að skuldi lögaðilar sektir ársreikningaskrár sem lagðar eru á vegna vanskila á ársreikningum fer innheimtumaður ríkissjóðs með viðkomandi í vanskilainnheimtu og í kjölfarið gjaldþrotaskipti ef ekki eru staðin skil á greiðslu sektanna."

Hin fortakslausa lagaskylda um gjaldþrotaskipti á félögum sem hunsa lögboðin skil á ársreikningum var samkvæmt þessu höfð að engu af Skattinum og framkvæmdin á meðhöndlun slíkra vanskila í andstöðu við fyrirmæli laganna. Að gefa félögum syndakvittun gegn því að greiða vanskilasekt er alls ekki í samræmi við lögin. Það vekur raunar sérstaka athygli að Skatturinn virðist samkvæmt svarinu ekki búa yfir getu til þess að knýja félög í skipti vegna vanefnda á ársreikningaskilum, eins og lagaskyldan stendur þó til en hafa full ráð til þess ef sömu félög greiða ekki sektina fyrir vanskil á reikningunum!

Það þarf auðvitað enga sérstaka reglugerð til þess að uppfylla þessa skýru lagaskyldu því einfaldara getur ferlið ekki verið en að leggja fram skiptabeiðni fyrir héraðsdómi að liðnum frestum með vísan til 121. gr. laga nr. 3/2006. Það er raunar til reglugerð nr. 664/2008 um ársreikningaskrá, skil og birtingu ársreikninga sem auðveldlega hefði mátt setja í setningu eða tvær um skipti á vanskilafélögum, ef því er að skipta. Það er svo umhugsunarefni að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið skuli ekki á 5 árum hafa getað hnoðað saman reglugerðartexta til að virkja lagaskylduna, ef Skatturinn taldi sig ekki geta framkvæmt þessa skýru skyldu án aðstoðar ráðuneytisins. Nú ku þessi reglugerð vera væntanleg og ég efast um að hún sé ritsmíð sem beri með sér 5 ára meðgöngutíma höfunda hennar.

Niðurstaðan er því sú að þessi lagabreyting frá 2016 sem átti að knýja félög til að upplýsa um sína fjárhagsstöðu að viðlögðum slitum hefur í raun verið einskis nýt.

Á hverju ári verður fjöldi einkahlutafélaga gjaldþrota. Mörg þeirra hafa ekki skilað ársreikningum og eru með bókhald sitt í molum. Eins og hlutafélagalögin eru núna er næsta erfitt að koma fram persónulegri ábyrgð á hendur stjórnendum slíkra félaga jafnvel þegar félög hafa verið tæmd af eignum og starfrækt ógjaldfær um langa hríð. Vísasti vegurinn til þess að stjórnendur sleppi með ólögmætar athafnir er að sjá til þess að engar eignir séu til staðar við gjaldþrot félags og treysta svo á að skiptin gangi fljótt fyrir sig.

Einföld ráð til þess að auka ábyrgð stjórnenda gjaldþrota hlutafélaga eru, í fyrsta lagi, að lögfesta öfuga sönnunarbyrði í málum þrotabús gegn stjórnendum og tengdum aðilum. Stefndu bera þá sönnunarbyrðina um að meðferð félagsfjár hafi verið forsvaranleg og félagið verið gjaldfært í rekstri, í stað þess að fella hana á kröfuhafa þrotabús. Í öðru lagi, mætti undanþiggja þrotabú því að setja málskostnaðartryggingu til stefndu í riftunarmálum sem beinast að aðilum tengdum gjaldþrota hlutafélagi. Lagabreytingar af þessu tagi myndu veita kröfuhöfum þrotabús aukna möguleika á að endurheimta fé til félags og um leið veita stjórnendum og hluthöfum aukið aðhald í rekstri félaga með takmarkaðri ábyrgð. Kennitöluflakkið yrði þá síður ábatasamt.

Höfundur er lögmaður.