https://www.vb.is/tbl/38/29/Pútín tilkynnti í vikunni fyrirhugaða atkvæðagreiðslu um innlimun hernumdra svæða í Úkraínu, sem væntanlega er til þess fallin að gera honum kleift að segja Úkraínumenn ráðast á Rússland, geri Úkraínumenn tilraun til þess að ná landsvæðum sínum til baka.

Í ræðu sinni tilkynnti Pútín jafnframt um herkvaðningu 300 þúsund manns til að mæta aukinni ógn úr vestri, en í ræðu sinni sakaði Pútín NATO-ríki um að vilja tortíma Rússlandi og sagði ríkin nota Úkraínumenn sem fallbyssufóður í þeim efnum. Hótaði hann um leið kjarnorkustríði, þar sem hann sagði að þegar landamærahelgi Rússa væri ógnað, þá myndi hann nýta allar færar leiðir til þess að verja Rússland og rússneska þjóð.
***
Í kjölfar yfirlýsingar Pútín var herkvaðningin af ýmsum sögð til marks um sneypuför Rússa í Úkraínu og fjallað um að meintur varaher Rússa væri lélegur. Bæði kann að vera satt og rétt en það er mikilvægt að halda því til haga að því örvæntingarfyllri sem Pútín verður, því líklegri er hann til að grípa til örþrifaráða og taka jafnvel enn galnari ákvarðanir en áður.
***
Það hvernig Pútín talaði um árásargirni vesturlanda í sama sleng og hann hótar að beita kjarnorkuvopnum fékk hárin á hnakka Týs til að rísa, og þessi orð Pútín verður að taka alvarlega. Pútín er nefnilega þekktur fyrir að byrja á því að saka aðrar þjóðir um árásargirni gagnvart Rússlandi, og jafnvel sviðsetja slíkar árásir, til þess að réttlæta yfirvofandi árás Rússa á téðar þjóðir. Það hvernig Pútín talaði um vilja NATO-ríkja til þess að tortíma Rússlandi og setti Úkraínu í hlutverk fallbyssufóðurs NATO-ríkja, fær mann óhjákvæmilega til þess að hugleiða hvort Pútín sé farinn að íhuga beina árás á NATO-ríki. Það að hér hans sé illa mannaður eru ekki endilega góðar fréttir þegar Pútín er farinn að hóta því að beita kjarnorkuvopnum.
***
Ljóst er að átökin eru að stigmagnast og að líkur á beinni aðkomu NATO að þeim hafa aukist. Pútín virðist til alls líklegur og þá er ekki gott að vera veikasti hlekkurinn í bandalaginu, líkt og Viðskiptablaðið hefur áður bent á.


Týr er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist íViðskiptablaðinu sem kom út 22. september 2022.