Óðinn skrifaði í Viðskiptablaðið í gær um erfiðleikana í rekstri Strætó og hækkun fargjalda. Reykjavíkurborg lagðist gegn frekari útvistun aksturs Strætó sem myndi spara um 500 milljónir á ári.

Ef farið hefði verið í þá útvistun hefði ekki þurft að hækka fargjöld, flotinn myndi menga minna og eigendur Strætó þyrftu ekki að leggja fram 1,5 milljarða króna.

Hér má lesa hluta pistilsins en áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.

Opinberi aksturinn fimmtungi dýrari

Jóhannes sagði að akstur vagnanna sjálfra og rekstur þeirra ekki hluta af grunnhlutverki Strætó, heldur felist það í skipulagningu og þjónustu. Jóhannes sagði það pólitíska ákvörðun í höndum yfirboðara síns hvort halda eigi áfram á þeirri vegferð, en tölurnar tali sínu máli.

Í greiningu KPMG kemur fram að akstur verktaka kostar Strætó 12.881 krónur á klukkustund samanborið við 15.540 krónur við eigin akstur með núverandi vagnaflota. Klukkustundakostnaðurinn er því um 21% hærri við eigin akstur.

Aðspurður um svo mikinn mun hjá Strætó og einkaaðilanum sagði Jóhannes:

„Það er fyrst og fremst bara það að þessi fyrirtæki [verktakarnir] hafa ákveðna samlegð með ferðaþjónustuakstri. Þeir nýta saman verkstæði, þvottastöðvar og fleira, og ná þannig mun betri nýtingu út úr fastafjármununum en við gætum nokkurn tímann gert.“

Með öðrum orðum. Það er sóun á peningum annarra að Strætó reki áfram eigin vagna og það er augljóst að framkvæmdastjórinn er áfram um það. En hvers vegna er það þá ekki gert.

***

Hvers vegna?

Það kom fram í viðtali í Viðskiptablaðinu við Rósu Guðbjartsdóttur, hinn skelegga bæjarstjóra í Hafnarfirði:

„Núna eru afleiðingar Covid að setja stórt strik í reikninginn en að mínu mati þarf til dæmis að taka aftur upp tillögur um aukna útvistun í akstri. Það náðist ekki samstaða um að bjóða út stærri hluta en raun ber vitni. Þar stóð helst á stærsta hluthafanum í byggðasamlaginu [Reykjavíkurborg], þrátt fyrir úttekt á samanburði á kostnaði við eigin rekstur og útvistun þar sem ráðgjafar mæltu með frekari útvistun. Hefði þetta náðst í gegn má gera ráð fyrir að hagræðing fyrir hundruð milljóna króna hefði náðst í rekstrinum og fjárfestingu í nýjum vögnum og fleira.“

Rósa nefnir fleiri hundruð milljóna króna sparnað. Það er kjarni málsins. Sparnaðurinn gæti numið um hálfum milljarði á ári. Líklega enn meira því meiri útvistun gæti þýtt enn meiri samkeppni í útboðum og verðið, sem nefnt var hér að ofan, gæti orðið enn hagstæðara.

Í eigendastefnu Strætó er fjallað um hvernig rekstrinum skuli háttað. Í grein 4.2 segir:

Rekstur Strætó bs. skal á hverjum tíma miðast við að lágmarka kostnað eigenda og samfélagsins við úrlausn þeirra verkefna sem byggðasamlaginu eru falin, að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem sett eru í þjónustusýn og umhverfisstefnu þess.

Með því að standa á móti útvistun á rekstri vagnanna er Reykjavíkurborg einfaldlega að brjóta gegn eigendastefnunni. Af hverju gera hinir eigendurnir ekkert í málinu?

Ekki nóg með einkareksturinn sé ódýrari, þá mengar hann minna. Eigin vagnar Strætó eru flestir komnir vel við aldur og það er fátt sem mengar meira og er hættulegra heilsu fólks á götum borga en slitnar díselvélar.

***

Reykjavík stendur fyrir sóun og mengun

Stjórn Strætó hækkaði fargjöldin á dögunum. Sú hækkun hefði verið óþörf ef Reykjavíkurborg stæði ekki gegn meiri útvistun. Reykjavíkurborg vinnur því bæði gegn lægri faggjöldum og minni mengun. Vinstri meirihlutinn í Reykjavík, bæði gamli og nýi, hætta aldrei að koma okkur á óvart hvað varðar heimskulegar ákvarðanir.

En það kemur einnig fram í eigendastefnunni að fargjöld eigi að standa undir 40% í af rekstrarkostnaði. Fyrir hækkunina var hlutfallið í kringum 20% og hefur, að sögn, aldrei farið yfir 30%.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær, 29. september 2022.