Forráðamenn Seðlabankans hafa um nokkurt skeið varpað fram alls kyns hugmyndum um lífeyrissjóðina og starfsemi þeirra, nú síðast á opnum fundi með þingnefnd í liðinni viku. Orðum fylgir ábyrgð, sérstaklega hjá fólki í opinberum stöðum og hjá banka sem fer með nokkuð vald.

Lán til sjóðfélaga eða fákeppni

Lánveitingar lífeyrissjóða eru ítrekað nefndar og viðruð sú skoðun að ekki sé heppilegt að lífeyrissjóðir láni sjóðfélögum sínum beint eins og tíðkast hefur í áratugi. Erfitt er að festa reiður á af hverju þessi skoðun er sett fram en nefnt hefur verið að án beinna lánveitinga lífeyrissjóða yrði peningastefna Seðlabankans virkari. Á einum fundi fjármálastöðugleikanefndar var einnig ýjað að því að þekking á lánveitingum innan lífeyrissjóðanna væri minni en hjá bönkunum.

Meginhlutverk sjóðanna er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga til að greiða lífeyri. Með hliðsjón af þessu hlutverki verða þeir að taka mið af efnahagslegu umhverfi og bjóða lánskjör sem taka mið af vöxtum á markaði hverju sinni. Ef Seðlabankinn breytir vöxtum og markaðsaðilar fylgja á eftir nær peningastefnan því einnig til lífeyrissjóða.

Húsnæðislánamarkaður myndi gerbreytast ef lífeyrissjóðir hættu að lána til sjóðfélaga.

Það er sérstakt að verða vitni að því að forráðamenn Seðlabankans hafi efasemdir um þekkingu á lánamálum og áhættustýringu innan lífeyrissjóðanna. Sem fyrr segir hafa sjóðirnir stundað lánveitingar með góðum árangri í áratugi og lentu til að mynda í mun minni innheimtumálum í fjármálahruninu heldur en aðrar fjármálastofnanir. Hjá sjóðunum eru til staðar þrautreyndir verkferlar og þekking meðal starfsmanna.

Húsnæðislánamarkaður myndi gerbreytast ef lífeyrissjóðir hættu að lána til sjóðfélaga. Afleiðingin yrði sú að einstaklingar hefðu mun minna val um húsnæðislán hjá fáum lánveitendum. Gerist það mun fákeppni taka við af samkeppni sem yfirleitt eru vondar fréttir fyrir neytendur.

Til upprifjunar er rétt að hafa í huga að séreignarsparnaður og viðbótarlífeyrissparnaður urðu til á vettvangi lífeyrissjóðanna og fyrir tilstilli baklands þeirra sem eru aðilar vinnumarkaðarins. Áður en núverandi lög um lífeyrissjóði voru samþykkt árið 1997 voru starfandi nokkrir lífeyrissjóðir sem buðu sjóðfélögum sínum að safna fyrir eftirlaunaárin með séreignarsparnaði.

Þegar löggjöfin um lífeyrissjóði var í vinnslu náðist sátt meðal haghafa um að lífeyrissjóðir skyldu tryggja sjóðfélögum sínum lágmarkstryggingavernd sem gat að hluta verið í séreign. Einnig var búinn til sérstakur sparnaður fyrir iðgjald umfram lágmarksiðgjald sem er viðbótarlífeyrissparnaður eins og við þekkjum hann í dag. Til að stuðla að samkeppni var opnað á að bankar, verðbréfa­fyrirtæki og tryggingafélög gætu einnig boðið viðskiptavinum sínum viðbótarlífeyrissparnað.

Aðgreining viðbótar­lífeyrissparnaðar frá lífeyrissjóðunum mun því fyrst og fremst bitna á neytendum.

Viðbótarlífeyrissparnaður fellur vel að starfsemi lífeyrissjóða sem bjóða sjóðfélögum sínum ódýra og fjölbreytta kosti. Þannig geta sjóðfélagar valið á milli leiða sem fjárfesta á innlendum og erlendum verðbréfamörkuðum, á sama kostnaði og lífeyrissjóðirnir sjálfir. Þetta er einstakt tækifæri fyrir einstaklinga sem geta með þessu móti notið eignadreifingar sem þeir gætu aldrei náð sjálfir og með mun minni tilkostnaði en bjóðast með milligöngu annarra fjármálafyrirtækja.

Aðskilnaður viðbótarlífeyrissparnaðar frá lífeyrissjóðum hefði lítil sem engin áhrif á stjórnarhætti. Sjóðirnir verða áfram stórir og gleymum því ekki að rúm 90% eigna þeirra eru í samtryggingu og svo er hluti séreignar skilgreind sem lágmarkstryggingavernd. Aðgreining viðbótar­lífeyrissparnaðar frá lífeyrissjóðunum mun því fyrst og fremst bitna á neytendum sem munu þá hafa um færri og dýrari kosti að velja – í sumum tilvikum mun dýrari.

Minni samkeppni ekki til hagsbóta

Það er eðlilegt og sjálfsagt að Seðlabankinn hafi skoðanir á umgjörð lífeyriskerfisins. Bankinn bendir réttilega á að eignir lífeyrissjóðanna eru orðnar meiri en viðskiptabankanna og því mikilvægt að áhætta tengd lífeyriskerfinu sé greind. Ég á hins vegar erfitt með að sjá hvernig minni samkeppni og jafnvel fákeppni um húsnæðislán og viðbótarlífeyrissparnað séu til hagsbóta.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom útí dag, fimmtudaginn 16. mars 2023.