Fleiri frelsisblys blönduðu sér í umræðuna um fjárlagafrumvarpið. Fjölmiðlum var umhugað um að fá álit Kristrúnar Frostadóttir, verðandi formanns Samfylkingarinnar, á frumvarpinu. Kristrún hefur farið mikinn að undanförnu og boðaði það til að mynda að Samfylkingin ætti að hætta að tala um ESB-aðild og nýja stjórnarskrá og tala þess í stað beint til almennings. En Kristrún gagnrýndi fjárlagafrumvarpið fyrir að sækja ekki skattfé til fyrirtækja sem gengur vel og „maka krókinn“ að hennar sögn. Kristrún er með öðrum orðum að boða skattlagningu til að refsa fyrirtækjum sem njóta velgengni og ljóst má vera að Samfylkingin undir hennar forystu stefnir á handahófskennt skattkerfi þar sem skattar eru ákvarðaðir eftir á og atvinnusköpun haldið niðri.

Hrafnarnir minna á að Kristrún er ekki að finna upp hjólið í þessum efnum enda hefur Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra talað með þessum hætti á kjörtímabilinu.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Pistilinn birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 15. september 2022