Hrafnarnir hafa ekki gert mikið af því að mæra Sólveigu Önnu Jónsdóttir og hennar fólk sem fer fyrir kjarabaráttu Eflingar. Hins vegar taka þeir hattinn ofan af fyrir henni vegna skilvirkni í fundarhöldum. Fundur samninganefndar Eflingar og Samtaka atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara á þriðjudag stóð þannig yfir í eina mínútu. Telja hrafnarnir að margir stjórnendur í einkageiranum og hjá hinu opinbera eigi að tileinka sér álíka skilvirkni í fundarhöldum.

Hvað um það. Nú stefnir allt í að tæplega þrjú hundruð félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Íslandshótelum leggi niður störf í næsta mánuði. Hrafnarnir bíða spenntir eftir hvort alþýðufólkið Sólveig Anna, Viðar Þorsteinsson og Stefán Ólafsson sem stýra kjarabaráttu Eflingar munu gera sömu kröfur til þeirra sem leggja niður störf og í síðasta verkfalli árið 2019. Þá kom fram í kynningarbæklingi Eflingar sú hótun að þeir sem lögðu niður störf í verkfallinu fengju ekki greitt úr verkfallssjóði nema þau mættu á verkfallsdegi í Gamla bíó til að gera kröfuspjöld og fara svo í skrúðgöngu með þau.

Huginn & Muninn er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi birtist 26. janúar 2023.