Fyrir um áratug stóð ríkið fyrir sérstakri Nýsköpunarsamkeppni ríkisstofnana.

Hvort sem menn trúa því eða ekki var markmið verðlaunanna að vekja athygli þeirra sem starfa í einkageiranum á nýsköpun í opinberum rekstri. Frá því að verðlaunin voru veitt hefur svo ríkisstarfsmönnum fjölgað án afláts og ríkið er leiðandi þegar kemur að starfskjörum menntaðs fólks.

Nýsköpunarsamkeppnin er ekki lengur við lýði. Væri það tilfellið þá er ljóst að Skatturinn myndi sópa til sín þeim verðlaunum í ár. Morgunblaðið sagði frá því á dögunum að Skatturinn hefði tekið upp á því að borga starfsmönnum sínum bónusgreiðslur sem reiknast út frá markmiðum stjórnenda stofnunarinnar um endur-álagningu á einstaklinga og lögaðila.

Skatturinn hefur svarað fyrirspurnum Viðskiptablaðsins um þetta undarlega háttalag. Í svarinu er vísað til þess að í stofnanasamningi embættisins við félög háskólamenntaðra starfsmanna er ákvæði sem heimilar bónusgreiðslur. Það eitt að mega gera eitthvað er ekki það sama og það eigi að gera það.

Vissulega er rétt að í samningnum er heimild til greiðslu bundin meðal annars við árangur í starfi, skilgreint sem sérstakt mat á framgöngu starfsmanns í starfi þar sem byggt er á viðmiðum stofnunar sem kynnt hafa verið starfsmanni sérstaklega. Spurningin er, hvað er það sem starfsmönnum í eftirlitsdeild er kynnt sérstaklega sem viðmið stofnunar varðandi árangur í starfi? Þessu þarf skatturinn að svara.

Álitaefnin hefðu átt að vera þeim sem tóku ákvarðanir um að innleiða þessar bónusgreiðslur augljós. Starfsmaður er ráðinn og honum er falið það hlutverk að hafa eftirlit með skattgreiðendum: leggja faglegt mat á hvort farið hafi verið rétt að skattalögum og koma við álagningu ef svo var ekki. Það blasir auðvitað við að auðveldara er fyrir yfirmenn hans að mæla álagninguna frekar en faglega matið. Hætta er því á að þetta faglega víki fyrir álagningunni.

Starfsmaður sem er faglegur fram í fingurgóma og kemst réttilega að þeirri niðurstöðu að ekki sé tilefni til álagningar í einhverju úrlausnarmáli uppsker ekki jafn ríkulega og sá sem er ófaglegur en herskár í endurálagningu.

Það blasir við að bónuskerfi eiga ekki heima í eftirlitskerfi hins opinbera og allra síst þar sem árangurinn er mældur í sektum eða eignaupptöku hjá almenningi. Það er ekki að ástæðulausu að reglur meina bönkum og fjármálafyrirtækjum að veita starfsmönnum sem sinna regluvörslu og innra eftirliti kaupaukagreiðslur.

En það er vissulega umhugsunarefni hvernig þeim sem stýra Skattinum hafi dottið í hug að innleiða slíkt kaupaukakerfi. Velta má fyrir sér hvort þetta sé sprottið af sýn á skattamál sem virðist hafa skotið rótum meðal stjórnmálamanna hér á landi á síðari árum. Hún felur í sér þá grundvallarhugsunarvillu að skattgreiðslur borgaranna séu „tekjur“ ríkisins. Það er ekki rétt. Skattur rennur frá borgurum til ríkisins út frá einhverri pólitískri sátt hverju sinni.

Það að yfirmenn Skattsins hafi umbunað þeim sem leggja hæstu álagninguna endurspeglar sjónarmið um að eftirlitsmennirnir séu fyrst og fremst að afla ríkinu tekna í stað þess að gæta að því að skattgreiðendur telji rétt fram. Þessi hugsun endurómar í málflutningi stjórnmálahreyfinga. Þannig leggja Samfylkingin og Viðreisn, svo dæmi séu tekin, áherslu á að efla skattrannsóknir. Rétt eins og þær séu sjálfsagt markmið í sjálfu sér með þá undirliggjandi hugsun að borgarar þessa lands séu almennt séð skattsvikarar sem ríkisstarfsmenn þurfi að uppræta.

Samfylkingin og ASÍ hafa jafnframt kveðið sama stefið um að loka einhverju sem þeir kalla „ehf-gati“. Þar sé að finna einhverja tugi milljarða sem einyrkjar og þeir sem eru með lítil fyrirtæki eiga að hafa svikið undan skatti á ári hverju. Fólk sem þiggur laun sín í gegnum einkahlutafélög borgar sömu prósentu af launum sínum í skatt og í sumum tilfellum hærra hlutfall.

Það er full ástæða til þess að ræða skattamál hér á landi. Sú umræða verður að fara fram með þekkingu á grundvallarstaðreyndum um verðmætasköpun og skattheimtu. Það væri ágætis byrjun á því samtali að yfirmenn Skattsins gerðu grein fyrir kaupaukagreiðslum til starfsmanna sinna.

Þessi leiðari birtist í blaðinu sem kom út miðvikudaginn 31. janúar. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.