*

laugardagur, 12. júní 2021
Ingólfur Bender
13. maí 2021 10:02

Slæmt ef Seðlabankinn þarf að bregðast við

Það mun bæta gráu ofan á svart ef verðhækkanir að undanförnu munu leiða til stýrivaxtahækkunar hjá Seðlabankanum.

vb.is

Reikna má með að áhrifin af miklum verðhækkunum hrávara og flutningskostnaðar undanfarið verði talsverð hér á landi og engu minni en reiknað er með að þau verði t.d. í Bandaríkjunum, Bretlandi og á evrusvæðinu. Færa mætti rök fyrir því að þau gætu jafnvel orðið meiri vegna þess að kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmið Seðlabankans er ekki jafn sterk hér og á fyrrgreindum svæðum.

Ofangreindar verðhækkanir eru utan áhrifasviðs stýritækja Seðlabankans. Engu að síður kann bankinn að finna sig knúinn til að bregðast við þeim með því að hækka stýrivexti vegna áhrifa þeirra á verðbólguvæntingar. Væri það slæmt nú þegar þörf er á að stýrivöxtum sé haldið lágum til að örva hagkerfið til vaxtar. Þessar verðhækkanir gætu því leitt til aukinnar verðbólgu, hægari vaxtar kaupmáttar og hærri stýrivaxta. Allt eru það þættir sem munu auka við þá efnahagslegu erfiðleika sem fyrirtæki og heimili í landinu eru nú að glíma við.

Miklar hækkanir hafa verið á verði á hrávöru og gámaflutningum frá miðju síðasta ári. Efnahagsbati heimsbúskapsins samhliða hnökrum í framleiðslu og flutningum hefur leitt til ójafnvægis á mörkuðum sem hefur stuðlað að þessum verðhækkunum með tilheyrandi auknum kostnaði fyrir fyrirtæki og heimili. Slæmt er að fá þessar verðhækkanir sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður. Það bætir síðan gráu ofan á svart ef þær munu leiða til hækkunar stýrivaxta Seðlabankans líkt og hugsanlegt er að verði raunin.

Í nýlegri greiningu Samtaka iðnaðarins kemur fram að hækkanir á verði almenns hrávöruverðs hafa síðustu misseri verið þær mestu í heilan áratug. Til að mynda hafa hrávörur á borð við timbur, málma og plastefni hækkað mikið í verði vegna öflugrar eftirspurnar og framleiðsluhnökra sem tilkomnir eru vegna COVID-19. Hrávöruverð án orkuverðs samkvæmt Alþjóðabankanum hefur hækkað um ríflega 40% á síðustu 12 mánuðum en í sumum tilfellum hefur hækkunin verið mun meiri.

Á sama tíma hefur flutningskostnaður margfaldast. Skipafélög heimsins fækkuðu skipum í umferð og drógu úr umsvifum sem viðbrögð við faraldrinum. Þessi samdráttur í afkastagetu hefur nú leitt til verðhækkunar þegar eftirspurn er vaxandi. Kostnaður við flutning 40 feta gáms frá Austur-Asíu til NorðurEvrópu hefur t.d. fimmfaldast frá upphafi faraldursins.

Óvissa er um hversu mikil áhrif þessar verðhækkanir munu hafa á verðbólgu hér á landi og erlendis. Í nýlegri greiningu hollenska bankans ING er því spáð að verðhækkanir hrávöru muni stuðla að tímabundinni aukningu í verðbólgu um 1,1 prósentustig í Bretlandi og á evrusvæðinu og um 0,7 prósentustig í Bandaríkjunum. Gert er ráð fyrir að hækkun flutningskostnaðar muni auka verðbólgu á næstu mánuðum um 0,4 prósentustig í Bretlandi og á evrusvæðinu og 0,3 prósentustig í Bandaríkjunum. Reiknað er með að áhrifin muni vara áfram út árið 2021 og líkast til eitthvað inn í árið 2022.

Verðbólgan mælist nú 4,6% hér á landi og hefur hún aukist nokkuð undanfarið ekki síst vegna mikillar verðhækkunar á innfluttum vörum. Skýra verðhækkanir innfluttrar vöru þannig 2,0 prósentustig af núverandi verðbólgu en til samanburðar skýrir húsnæðisliðurinn 0,9 prósentustig. Verðbólgan er meiri hér en í Bandaríkjunum, Bretlandi og á evrusvæðinu og talsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Best væri ef Seðlabankinn gæti sleppt þessum verðhækkunum hrávara og flutningskostnaðar í gegn án viðbragða en óvíst er hvort sú verður raunin. 

Höfundur er aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.