*

miðvikudagur, 14. apríl 2021
Andrés Magnússon
14. apríl 2019 13:43

Styrkir & vanmáttur

Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera.

Óli Björn Kárason, stofnandi og fyrsti ritstjóri Viðskiptablaðsins situr á þingi í dag, en hann hefur verið fremstur í flokki gagnrýnenda frumvarpsdraga menntamálaráðherra um fjölmiðlastyrkjakerfi.
Haraldur Guðjónsson

Fjölmiðlastyrkjakerfi menningarmálaráðherra er enn í vinnslu, en ýmsar athugasemdir komu fram við það eftir kynningu þess í lok janúar. Það hefur auk þess vafist nokkuð fyrir stjórnarflokkunum, því þó að framsóknarmenn séu mjög áfram um styrkjakerfi og vinstrigræn almennt hlynnt því, þá gætir mun meiri efasemda í röðum sjálfstæðismanna. Þar hefur Óli Björn Kárason, stofnandi og fyrsti ritstjóri þessa blaðs, verið fremstur í flokki gagnrýnenda frumvarpsdraganna.

Óli Björn hefur talað mjög opinskátt um rekstarvanda fjölmiðla, sem mega heita eina atvinnugreinin sem ekki hefur reist sig eftir hrun, en hefur áhyggjur af því hve kæruleysislega margir kollega hans tala um að sletta í þá skattfé. Á hinn bóginn virðist þeir fæstir mega heyra minnst á að böndum sé komið á ríkisrekstur fjölmiðla, sem þrengi ákaflega að frjálsu miðlunum. Kjarninn í málflutningi hans er þessi:

Fátt er hættulegra fyrir frjálsa fjölmiðlun en að vera háð opinberum styrkjum og nefndum á vegum hins opinbera sem skammta úr hnefa fjármuni til að standa undir einstökum þáttum í rekstrinum. Fjölmiðlun sem er háð hinu opinbera með beinum hætti verður aldrei frjáls nema í orði.

Það er rétt hjá Óla Birni, að fjölmiðlar sem skrimta sem beiningamenn stjórnvalda séu ekki frjálsir í raun.

                                                               ***

Athugasemd Óla Björns er ekki úr lausu lofti gripið, því ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á hinu vanheilaga sambandi ríkisvalds og fjölmiðla, þar sem svo háttar. Til dæmis má benda á rannsókn þeirra Rafaels Di Tella við Harvard-háskóla og Ignacio Franceschelli við Northwestern University í Bandaríkjunum, þar sem þeir könnuðu þróun fjölmiðla í Argentínu með tilliti til beinna ríkisstyrkja, opinbers stuðnings og auglýsingakaupa hins opinbera.

Þar mátti greina eindregna fylgni milli opinberra styrkja og áhugaleysis fjölmiðla á að fjalla um spillingu í stjórnsýslunni. Sú fylgni fannst ekki aðeins þegar einstakir fjölmiðlar voru bornir saman, heldur einnig þegar horft var á tiltekna fjölmiðla og breytinga á opinberum styrkjum milli tímabila. Standa líkur til þess að því verði öðru vísi farið á Íslandi þegar miðlarnir verða beintengdir við velvild fjárveitingavaldsins og stjórnmálamannanna, sem fara með það?

Ekki verður séð af frumvarpsdrögunum og greinargerð með þeim, að þessu hafi verið gefinn minnsti gaumur. Það er stórkostlegt áhyggjuefni.

                                                               ***

Sumir hafa sagt að þeir fjármunir, sem rætt hefur verið um að styrkja fjölmiðla með, séu ekki upp í nös á ketti hjá umsvifameiri miðlum og muni því ekki hrökkva til að bæta rekstur þeirra svo neinu nemi. Það er nokkuð til í því; fyrir þá verður ávinningurinn lítill. En skaðinn er samur, því þegar slíku styrktarkerfi hefur einu sinni verið komið á verður því trauðla hrundið.

Rekstur velflestra fjölmiðla hefur verið í járnum árum saman en þó þá stærstu muni e.t.v. lítið um 50 kúlur í kassann, þá munu þeir ekki mega við að missa búbótina. Hvaða stjórnmálamaður er svo hugaður að vilja egna gervallan fjölmiðlageirann gegn sér með afnámi slíkra styrkja?

Sagt er að hlutverk fjölmiðla sé öðrum þræði að veita stjórnvöldum aðhald, en það ætti hverjum manni að vera ljóst að með styrkjakerfi að hætti Lilju væri samband stjórnvalda og fjölmiðla einstaklega óheilbrigt, báðum hættulegt en heilbrigðri þjóðmálaumræðu og lýðræðinu sjálfu þó mest.

                                                               ***

Það er því með ólíkindum, þegar pælt er í gegnum hinn háa bunka aðsendra athugasemda við frumvarpið, að velflestar eru þær áhyggjur af því að hinir og þessir miðlar tengdir bréfriturum fái nú einhvernveginn ekki það sem þeim bæri í besta heimi allra heima. Enginn minnist á að með styrkjakerfi stjórnmálamanna kunni frjálsri fjölmiðlun að vera stefnt í voða.

Blaðamannafélagið eyðir þó í það einni varlegri setningu: „Einnig ber að gjalda varhug við fyrirætlunum um að ríkisvæða einkarekna fjölmiðla í of miklum mæli.“ – Já og jæja.

                                                               ***

Eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan hefur á ýmsu gengið í tekjuöflun fjölmiðla undanfarinn áratug, en þar eru vandræði dagblaðanna augljósust. Þeim hefur fækkað mikið á þeim tíma og eru nú aðeins tvö, en auk þess var hrunið fjölmiðlum sérstakt áfall, sem þeir hafa enn ekki jafnað sig á, ein íslenskra atvinnugreina.

Að undanförnu hefur mátt greina að dagblöðin bæði hafa gripið til ýmissa aðhaldsaðgerða. Morgunblaðið hefur sagt upp nokkrum blaðamönnum, en eins hafa verið gerðar ýmsar breytingar á útliti og uppröðun efnisþátta blaðsins til að stytta það. Dagblaðapappír hefur hækkað talsvert í verði undanfarin misseri, sem léttir Mogga örugglega ekki lífið. Fréttablaðið er undirmannað og á mánudag var greint frá því að útgáfufélag þess hefði keypt prentvélina af Ísafold, en það hefur um skeið reynt að losa sig undan prentsamningi þaðan.

                                                               ***

Styrkjakerfi fjölmiðla mun litlu breyta um rekstur miðlanna, en er sérstaklega til þess fallið að draga úr þeim tennurnar. Er það ætlunin? Meini stjórnmálamenn eitthvað með því að þeir vilji styrkja rekstrarumhverfi þeirra, þá eiga þeir að gera nákvæmlega það, en ekki stinga ávanabindandi og gagnslausum dúsum upp í þá. Þar blasa við ráðstafanir eins og þær að afnema virðisaukaskatt á fjölmiðla, undanþiggja þá tryggingagjaldi og ámóta, sem er til þess fallið að breyta umhverfinu en ekki að skekkja það frekar samkvæmt náð stjórnvalda dagsins.

Eftir sem áður er þó óræddur mammúturinn í stássstofunni, sem er Ríkisútvarpið. Meðan sá hlunkur fær umyrðalaust að belgja sig út á 4,6 milljörðum króna úr vasa skattgreiðenda (virðisaukaskattslaust) og sogar upp um 2,5 milljarða af auglýsingamarkaði, þá er olnbogarými frjálsu miðlanna afar þröngt. Þeir eiga eiginlega ekki sjens. – Alveg sama hvað Lilja vill vera örlát á annarra fé.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.