Það er algengt að fréttamenn slái á létta strengi þegar svo ber undir og ræði við vegfarendur í beinni útsendingu í fréttatíma um einhver dægurmál. Þann 18. janúar var fjallað um fyrirhugaðar lokanir á sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu vegna kuldatíðarinnar sem þá var uppi.

Í fréttatímanum var Hafdís Helga Helgadóttir stödd við sundlaugarbakkann í Árbæjarlaug og ræddi hún við „nokkra pottverja“ um fyrirhugaðar lokanir. Þeir sýndu málinu einhvern skilning að undanskildum einum. Sá hafði allt á hornum sér og sagði ólíðandi að laugunum væri lokað meðan að gufuaflsvirkjanir gengu áfram eins og ekkert hefði í skorist og ál væri áfram brætt á Grundartanga. Viðmælandinn var vissulega nafngreindur en ekki var tekið fram að Auður Önnu Magnúsdóttir væri framkvæmdastjóri Landverndar í fréttinni.

***

Í Morgunblaðinu á mánudag var fjallað um fyrirhugaða hækkun Símans á áskriftarverði Símans sports sem sýnir frá leikjum í ensku úrvalsdeildinni. Áskriftin hækkar um 1.600 krónur á mánuði og verður hér eftir 6.500 krónur.

Morgunblaðið hefur eftir Guðmundi Jóhannssyni, samskiptafulltrúa Símans, að verðhækkunin sé vegna þriggja þátta: „Kostnaður vegna samninga við Premier League hefur hækkað, veiking krónunnar hefur mjög neikvæð áhrif og annar kostnaður, til dæmis aðföng, laun útsendingakostnaður og fleira hefur hækkað.”

Vafalaust er þetta allt saman satt og rétt hjá upplýsingafulltrúanum. En áhugavert væri að vita hvort það hafi ekki komið til greina að draga úr útsendingarkostnaði með því að hætta að senda starfsmenn Símans sport til Englands á leiki mörgum sinnum í mánuði til þess að draga úr kostnaði þannig að stemma mætti stigu við hækkunum á áskriftargjöldum. Ekki síst ljósi þess að þessar heimsóknir stjórnenda enska boltans hjá Símanum bæta litlu við aðra umfjöllun sem er aðgengileg á Netinu eða í þeim fjölmörgu ljósvakamiðlum þar sem tuðruspark er rætt.

***

Þátturinn Vikulokin á Rás 1 var einu sinni byggður þannig upp að fólk víðsvegar að úr samfélaginu kom saman og reynt var að skapa breidd í hópnum, bæði er varðaði þjóðfélagahópa og stjórnmálaskoðanir. Þættinum var ætlað að hleypa að fleiri röddum í þjóðfélagsumræðuna. Þetta breittist fyrir einhverjum árum og nú er fyrst og fremst sótt í álitgjafahóp hér af Reykjavíkursvæðinu, jafnvel úr 101 Reykjavík eins og var reyndin síðasta laugadag.

Síðasta laugardag fékk þáttastjórnandinn Höskuldur Kári Schram þau Gunnar Smára Egilsson sósíalista, Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, upplýsingafulltrúa Kára Stefánssonar (sem segist vera sósíalisti!) og Odd Ástráðsson lögmann sem sagðist tala sem Oddur en ekki lögmaður þegar hann tjáði sig um rafbyssur.

„Er ég eini sósíalistinn hér,“ spurði Gunnar Smári glaðhlakkalega um miðbik þáttarins og þáttastjórnandi sagði nei, nei. Þáttastjórnandi tilkynnti í upphafi að umræðuefnin yrðu rafbyssur, útlendingamál og verkfall Eflingar - fréttadagskrá vikunnar að hans mati. Það verður að segja að umræðan væri eintóna og hlustendum boðið uppá svo einhliða umræðu um þessi mál að flestum blöskrar.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út 2. febrúar 2023.