*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Steinar Þór Ólafsson
26. mars 2021 14:33

Sviðsmynd á Instagram

„Það var varla liðinn sólarhringur frá því að byrjað var að gjósa í Fagradalsfjalli þar til fyrsta bónorðið var borið upp“

epa

Það var varla liðinn sólarhringur frá því að byrjað var að gjósa í Fagradalsfjalli þar til fyrsta bónorðið var borið upp á grundum Geldingadala. Á þeim örfáu dögum sem liðnir eru frá gosinu hefur fólk reynt hinar ýmsu kúnstir í og við rauðglóandi hraunið. Einhverjir hafa þannig nýtt sér það til að „grilla" pulsur, kveikja sér í sígarettu og steikt egg og beikon, að ógleymdum miðaldra karli að bera sig. Líklega velta margir fyrir sér á svona stundum: Af hverju flýtur einhver niður Stuðlagil á uppblásnum einhyrningi eða lætur mynda sig berrassaðan á rauðglóandi hrauni?

Ef við flysjum lauk samfélagsmiðla til mergjar er tilgangur þeirra í raun bara tvíþættur. Sá augljósi er hagnýtt gildi þeirra. Engum finnst t.d. sérstaklega gaman á Facebook lengur en öll höldum við áfram að nota miðilinn því hann einfaldar okkur að vera í sambandi við fjölskyldu og vini. Hin ástæðan er þessi félagslegu auðæfi (e. social capital) sem sérstaklega ungt fólk sér virði í að byggja upp á miðlunum.

Til einföldunar má segja að félagsleg auðæfi á samfélagsmiðlum virki svipað verðbréfaviðskiptum. Hverjum nýjum samfélagsmiðli má líkja við fyrsta útboð. Hægt er að eignast verðbréfin með pínu fyrirhöfn og áhættunni að hann verði að engu, en nái hann flugi hækkar verðið á bréfunum yfir tíma innan miðilsins sem gerir það erfiðara að eignast þau. Einu sinni var t.d. nóg að setja mynd á Instagram af egg og beikon úr eldhúsinu heima hjá þér. En núna dugar ekkert minna en mynd af þér við rætur spúandi eldfjalls að steikja það á 1.000 gráðu heitu hrauninu.

Eldgosið í Fagradalsfjalli er nefnilega ekki bara staður til að sjá og upplifa. Eldgosið er ekki síður sviðsmynd og props fyrir félagsleg auðæfi á Instagram.

Höfundur er samskiptasérfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.