Í kjölfar vel heppnaðs útboðs Ölgerðarinnar á dögunum var haft eftir Andra Þór Guðmundssyni, forstjóra félagsins, að fjórðungur þeirra sem tóku þátt væri undir þrítugu. Leiða má líkum að þessi aldurshópur hafi einnig í einhverjum mæli tekið þátt í öðrum útboðum samhliða skráningum i Kauphöllina á undanförnum misserum.

Það er fagnaðarefni að ungt fólk líti í vaxandi mæli til hlutabréfamarkaðarins þegar kemur að ráðstöfun sparnaðar og veitir vísbendingu um að fjármálalæsi þessa aldurshóps sé betra en stundum er haldið fram í opinberri umræðu. Aukin þátttaka ungs fólks á verðbréfamörkuðum hefur haldist í hendur við vaxandi þátttöku á markaðnum á undanförnum árum. Á nokkrum árum hefur almennum fjárfestum fjölgað um tugþúsunda á hlutabréfamarkaðnum. Sennilega eiga nú meira en 30 þúsund manns hlutabréf í félögum sem eru skráð í Kauphöllinni.

Við árslok 2019 áttu um 8 þúsund manns slíka eign og hefur því hópurinn fjórfaldast á einungis tveimur árum.

Tvennt skýrir þessa þróun að mestu. Í fyrsta lagi lækkandi vaxtarstig sem hefur leitt til þess að þeir sem eiga sparnað hafa farið með sparnað sinn í auknum mæli inn á hlutabréfamarkaðinn. Ber því þessi þróun vitni um ágæta stöðu flestra heimila. Í öðru lagi hefur skráðum félögum í Kauphöllinni fjölgað undanfarin ár og útlit er fyrir að framhald verði á næstu misseri.

Það sem er ekki síst áhugavert við þessa þróun er að almenningur hefur tekið í miklum mæli þátt í hlutabréfaútboðum félaga á leið á markað þrátt fyrir andstöðu verkalýðshreyfingarinnar. Um tíma fór ekki fram hlutafjárútboð hér á landi án þess að helstu leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafi reynt að bregða fyrir því fæti. Það er ánægjulegt að þessi málflutningur forsvarsmanna hinna vinnandi stétta naut ekki hljómgrunns hjá almenningi og vekur það upp áleitnar spurningar um erindi þessara leiðtoga verkalýðshreyfingarinnar.

Þrátt fyrir að aðstæður á markaði séu nú ekki jafn hagfelldar og þær hafa verið á undanförnum árum vegna vaxandi verðbólgu er margt sem kann að styðja við hlutabréfamarkaðinn þegar fram í sækir og búið verður að verðleggja hærra vaxtarstig inn í verðlagningu kauphallarfélaganna. Rekstur þeirra flestra er góður og efnahagurinn stendur traustum stoðum. Útlit er fyrir að hærra vaxtarstig hér á landi leiði til aukins innflæðis erlendra fjárfestingar á verðbréfamarkaðinn. Einnig er enn til staðar umtalsvert svigrúm hjá mörgum skráðum félögum til að koma fjármagni til hluthafa gegnum arðgreiðslur og endurkaup.

Það má því gera ráð fyrir að ekkert lát verði á þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði á komandi árum. Í ljósi þess er full ástæða að velta fyrir sér hvert erindi stjórnmálaöfl sem kenna sig við borgaraleg gildi er við þann ört stækkandi hóp. Hagsmunir þeirra sem leggja sparnað sinn í hlutabréfa- og skuldabréfamarkað hvíla á stöðugleika í efnahagslífi og ábyrgri stjórn ríkisfjármála. Auk þess reiða þeir sig á að traust ríki á að lögmálum markaðarins sé leyft óhindrað að umbreyta sparnaði í fjárfestingu og dreifa áhættu milli þeirra sem hana vilja taka og þeirra sem hana forðast eftir skýrum leikreglum og eftirliti þar til bærra stofnana.

Full ástæða er til að velta fyrir sér hvort borgaralega sinnaðir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafi sett þessi mál á dagskrá með fullnægjandi hætti á undanförnum árum. Svarið við þeirri spurningu mun ráða miklu um hvort þeim takist að höfða til þess stóra hluta almennings sem tekur þátt í markaðshagkerfinu með því að verja sparnaði sínum til kaupa á hlutabréfum og skuldabréfum.

„Almenningshlutafélög eru ekki einungis mikilvæg af efnahagsástæðum heldur eru þau e.t.v. þýðingarmesti þátturinn í því þjóðfélagskerfi, sem nefna mætti auðstjórn almennings eða fjárstjórn fjöldans,“ ritaði Eyjólfur Konráð Jónsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á sínum tíma.

Þessi orð eiga jafn mikið erindi nú og þegar þau voru rituð. Vaxandi þátttaka almennings og ekki síst ungs fólks á hlutabréfamarkaðnum kallar á að stjórnmálamenn taki þessi mál alvarlega. Mikilvægum tækifærum hefur verið glutrað í þessum efnum eins og seinni sala Íslandsbanka sýnir. En þau eru enn til staðar til að virkja þátttöku almennings enn frekar og því er mikilvægt að stjórnmálamenn svari kallinu og stuðli að heilbrigðu umhverfi markaðarins og hverfi frá áformum um að umturna honum eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni