Landsbankinn er leiðandi banki. Við lítum á það sem meginhlutverk okkar að veita því samfélagi sem við störfum í frábæra alhliða bankaþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.

Til að bankinn sé leiðandi er grundvallaratriði að reksturinn sé traustur til lengri tíma og að bankinn sé í stakk búinn til að mæta mögulegum sveiflum og áföllum. Nýverið var bent á að arðsemi bankans á fyrsta fjórðungi væri lág – bankinn væri líklega með önnur viðmið í rekstri en að skila góðri afkomu. Stærð eignarhlutar bankans í Eyri, sem er óbeint eignarhald á Marel, var nefnt sem dæmi um slíkt viðmið.

Það er rétt að arðsemin á fyrsta fjórðungi var undir markmiðum. En það má líka fylgja að á fyrsta fjórðungi jukust þjónustutekjur um 28% milli ára og hreinar vaxtatekjur um 19%. Það er stöðug aukning í umsvifum bankans í eignastýringu og dótturfélag Landsbankans, Landsbréf, stofnaði þrjá nýja sjóði á árinu sem leið. Einstaklingar, fyrirtæki og fagfjárfestar treysta Landsbankanum og Landsbréfum fyrir langtímaávöxtun á eignum sínum.

Meðalarðsemi bankans á ári undanfarin 5 ár er 7,8% og markmið okkar er að ná í kringum 10% árlegri arðsemi til lengri tíma. Á undanförnum árum hefur bankinn greitt að meðaltali 16,7 milljarða í arð á ári og hefur þar að auki greitt að meðaltali 11 milljarða í skatt á ári. Eitt stærsta viðfangsefni bankans til að auka arðsemi er að minnka eigið fé bankans sem er vel umfram lágmarkskröfur.

Landsbankinn er með fjölbreytta viðskiptavini í öllum grunnatvinnugreinum þjóðarinnar. Aldrei hafa fleiri lítil og meðalstór fyrirtæki hafið viðskipti hjá bankanum og einstaklingum í viðskiptum fjölgar enn hraðar, enda hefur bankinn unnið markvisst að því að einfalda leiðina til að gerast viðskiptavinur og gera ferlið stafrænt. Stór fyrirtæki eiga traustan bakhjarl í Landsbankanum þegar kemur að stórum og áhættusömum langtímafjárfestingum sem treysta rekstur þeirra til framtíðar.

Það var einmitt slík uppbygging sem var sprautan að samstarfi Marels, Eyris og Landsbankans, þegar Marel fór í stóra yfirtöku á Stork árið 2008. Þetta var eitt fyrsta skrefið á stórkostlegri vegferð Marels. Í dag á Landsbankinn 14,1% hlut í Eyri og hluturinn hefur minnkað úr um 27,5% þegar hann var sem stærstur. Það er ekki hluti af kjarnastarfsemi bankans að eiga stóra, óskráða eignarhluti og stefna bankans er að minnka þennan hlut áfram. Sveiflur í virði eignarhlutarins vegna breytinga á gengi Marels hafa áhrif á afkomuna en hafa ekkert að segja um aðrar áherslur í rekstri bankans.

Á undanförnum árum höfum við umbreytt þjónustu bankans. Reksturinn er skilvirkari en áður. Rekstrarkostnaður bankans, án bankaskatts, hefur staðið í stað undanfarin 5 ár og til að setja það í samhengi hafa t.d. útlán aukist um rúmlega 10% á ári á sama tíma og eignir í stýringu hafa aukist um 12% á ári. Umsvif hafa aukist en kostnaður er stöðugur.

Markvissar breytingar og fjárfestingar sem unnið hefur verið að á undanförnum árum treysta reksturinn enn frekar. Um 88% af þjónustuþáttum sem áður voru í afgreiðslu eru nú stafrænir eða rafrænir. Lokið hefur verið við risastór innviðaverkefni og margar umfangsmiklar Evrópureglugerðir hafa verið innleiddar þannig að þær virki sjálfvirkt þvert á kerfi bankans. Nýlega var tilkynnt um fyrstu rafrænu þinglýsingar íbúðarlána sem munu einfalda ferlið fyrir viðskiptavini. Bankinn er með sterkari innviði en nokkru sinni fyrr.

Starfsfólk Landsbankans er frábært. Það er með jákvætt viðhorf til breytinga, finnur leiðir til úrlausnar og sýnir þrautseigju. Það skiptir okkur máli að hafa sterk tengsl við allt landið í gegnum starfsstöðvar bankans sem eru samsettar af stærri kjörnum og smærri afgreiðslum. Við höfum á undanförnum þremur árum náð að tengja alla starfsemi útibúa og Þjónustuvers saman. Við lengdum líka þjónustutímann og bjóðum viðskiptavinum hvaðanæva af upp á samtal eða fjarfundi við reynslumikla ráðgjafa sem eru staðsettir víðsvegar um landið. Þarna sameinum við bætta þjónustu, góðan rekstur og aukinn sveigjanleika fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk. Sjaldan hefur nokkur breyting skilað jafn mikilli ánægju jafnt til viðskiptavina sem starfsfólks og um leið bættri afkomu.

Það er hvergi mikilvægara en í því litla landi sem við búum að leiðandi fyrirtæki hlúi að fleiri þáttum í umhverfi sínu en snúa að kjarnastarfsemi og taki þátt í að efla og stækka íslenskt samfélag. Leiðandi fyrirtæki skilja ekki eftir sig sviðna jörð heldur stuðla að sjálfbærni hjá sér og öðrum. Leiðandi fyrirtæki búa vel að starfsfólki sínu.

Landsbankinn hefur náð mjög góðum árangri undanfarin ár og það skiptir okkur máli hvernig það er gert. Við erum alltaf með augun á rekstrinum og afkomunni, en líka á viðskiptavinum, starfsfólki, þátttöku okkar í samfélaginu og áhrifum á umhverfi. Takk fyrir aðhaldið, við ætlum að standa okkur vel því Landsbankinn er leiðandi banki.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út 26. maí 2022.