Þó lítið hafi farið fyrir því eftir efnahagshrunið haustið 2008 þá er samstaða eitt af því sem Íslendingar kunna hvað best. Þegar snjófljóðin féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995 tóku allir þátt í sorginni sem því fylgdi, svo dæmi sé tekið. Samhugurinn og samstaðan er sjaldan langt undan þegar virkilega á reynir. Því miður hefur okkur förlast þetta sl. 3 ár eða svo.

Um þessar mundir standa tvenn hjón fyrir stórkostlegu átaki undir heitinu Meðan fæturnir bera mig. Þau Sveinn Benedikt Rögnvaldsson og Signý Gunnarsdóttir, foreldrar Gunnars Hrafns sem greindist með bráðahvítblæði í janúar 2010, hlaupa nú hringinn í kringum landið ásamt systur Sveins Benedikts, Ölmu Maríu og manni hennar, Guðmundi Guðnasyni. Tilgangur átaksins er að safna fé til handa Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna og þegar þetta er skrifað hafa safnast hátt í 6 m.kr.

Það var ekki upphaflegur tilgangur þess að hefja regluleg skrif á skoðunarsíðu VB.is að fjalla um almenn dægurmál. Stundum er þó í lagi að líta upp úr dægurþrasi stjórnmálanna og annríki viðskiptalífsins og horfa til þess sem gefur lífinu gildi. Í þessu tilfelli er það samstaðan og fjölskyldan.

Fyrir utan afrekið sjálft, að hlaupa hringinn í kringum landið, þá er merkilegt að sjá hvernig framtak hjónanna dregur fram það besta í landsmönnum. Maður kemur varla á þann stað í dag þar sem ekki er rætt um afrek þeirra og baráttuhug og þetta sést enn betur þegar fylgst er með viðbrögðum fólks allt í kringum þau.

Hvert sem þau koma er fólk tilbúið að færa fórnir. Sumir hlaupa eða hjóla með til að sýna samstöðu, veitingamenn útvega frían mat, þjónustufólk á hótelum þvær hlaupabúningana óumbeðið,  hóteleigendur bjóða fría gistingu, tilboðum um nudd og annað dekur rignir inn og allir vilja taka þátt í baráttunni. Þá koma fjölmörg fyrirtæki að átakinu með ýmiss konar framlögum eða þjónustu.

Ég ætla ekki að reyna að setja mig í spor þeirra hjóna og eflaust vona þau sjálf að sem fæstir þurfi að upplifa það sem þau hafa upplifað. Það hlýtur að skera í hjarta hvers foreldris að sjá börnin sín þjást og geta ekkert gert. Þau Sveinn Benedikt og Signý hafa þurft að heyja baráttu við lífið sjálft og átak þeirra nú er aðeins einn liður í því að þakka fyrir þann stuðning sem þau hafa þegar fengið frá styrktarfélaginu og öðrum sem verið hafa í sömu sporum.

Signý, Sveinn Benedikt, Alma María og Guðmundur hafa þegar unnið mikið þrekvirki og eiga allt það hrós skilið sem til er. Þau eru nú nær hálfnuð með átak sitt og hafa vakið mikla athygli á stöðu krabbameinssjúkra barna. Það er ekki hægt annað en að dást að þeim og átaki þeirra og óska þeim alls hins besta á næstu dögum.