*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Helgi Þór Ingason
18. febrúar 2018 10:29

Þriðjungur í formi verkefna

Þriðjungur af umsvifum atvinnulífsins er í formi verkefna.

Undanfarin ár hefur verkefnastjórnun rutt sér til rúms í íslensku atvinnulífi og umræða um verkefni af ýmsu tagi er áberandi í fjölmiðlum. Margir bera titilinn verkefnastjóri, enn fleiri taka beinan og óbeinan þátt í verkefnum og í atvinnuauglýsingum er algengt að fyrirtæki og stofnanir auglýsi eftir verkefnastjórum til starfa.

Eftirspurn eftir menntun og þjálfun á þessu sviði hefur aukist verulega og henni er mætt með vaxandi framboði af lengri og styttri námskeiðum og námsbrautum. Einnig er boðið upp á alþjóðlegar vottanir í verkefnastjórnun til að staðfesta þekkingu og hæfni einstaklinga á þessu sviði. Það er því ljóst að verkefnum vex fiskur um hrygg í atvinnulífinu, en hversu umfangsmikil eru þau í atvinnulífinu og hvert er efnahagslegt vægi þeirra? Slíkum spurningum hefur ekki verið unnt að svara með beinum hætti og því hafa fullyrðingar um efnahagslegt vægi verkefna ekki byggst á staðreyndum heldur byggst á huglægu mati, innsæi og tilfinningu.

Nú hefur orðið breyting hér á með alþjóðlegri rannsókn sem framkvæmd var á árunum 2014-2017. Frumkvæðið kom frá þýskum vísindamönnum og fyrsti hluti rannsóknarinnar var einmitt framkvæmdur í Þýskalandi. Þýska rannsóknin var svo endurtekin í Noregi og á Íslandi og heildstæðar niðurstöður þessa verkefnis birtust í nýlegri grein í hinu virtu vísindatímariti IJPM (International Journal of Project Management).

Greinin fjallar um verkefnavæðingu í vestrænum samfélögum og þar er greint frá rannsókn á efnahagslegu vægi verkefna í löndunum þremur. Sýnt er fram á að þriðjungi af unnum vinnustundum í þessum löndum er varið til verkefna. Hlutfallið er hæst í Þýskalandi en lægst á Íslandi. Í öllum löndum hefur þetta hlutfall hækkað mikið á síðustu árum, en því er jafnframt spáð að hlutfallið fari hækkandi á komandi árum. Ein sérlega athyglisverð niðurstaða úr þessari rannsókn er sú að þorri verkefna fyrirtækja og stofnana eru innri verkefni, til dæmis innleiðingar á nýju verklagi eða upplýsingakerfum, innri rannsóknar- eða þróunarverkefni, skipulagsbreytingar og verkefni sem tengjast útvíkkun starfseminnar svo nokkuð sé nefnt.

Að þekkja efnahagslegt vægi verkefna í hagkerfinu, og hvernig staðan hvað þetta varðar er á Íslandi í samanburði við nágrannalönd, er ótrúlega mikilvægt innlegg í umræðu um góða stjórnunarhætti, samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, áherslur í menntunarmálum þjóðarinnar, og hvernig draga má úr sóun og stuðla að betri nýtingu á opinberum fjármunum.

Í sífellt vaxandi mæli er virðissköpun og innra starf í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum í formi verkefna. Þetta er sama þróun og í nágrannalöndum okkar og Ísland má ekki verða eftirbátur annarra þjóða hvað þetta varðar. Við megum hvergi gefa eftir í þeirri viðeitni að auka fagmennsku í stjórnun verkefna, auka kröfur um að þeir sem stjórna verkefnum séu faglega hæfir og hafi reynslu og réttan bakgrunn. Við þurfum að vanda okkur þegar við ákveðum hvaða verkefni við ráðumst í, og fylgja því fast eftir að þeim sé skilað á réttum tíma og kostnaði. Ekki síður að þau séu unnin í samræmi við væntingar hagsmunaaðila og í sem bestri sátt við umhverfi sitt.

Höfundur er prófessor og forstöðumaður MPM náms Háskólans í Reykjavík.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is