Síðustu ár í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið ævintýri líkust. Sá ótrúlegi vöxtur sem við höfum farið í gegnum hefur skapað tækifæri sem nú er mikilvægt að vinna vel úr.

Það er alltaf gaman þegar atvinnugreinar vaxa hratt. Við leysum vandamálin sem óhjákvæmilega fylgja hröðum vexti með bros á vör en núna þegar hægir á vextinum reynir verulega á okkur því það er vandasamt að nýta þann vöxt sem er að baki þannig að hann þjóni okkur áfram.

Óskandi væri að við gætum núna haldið fengnum hlut og vaxið með svipuðum hraða og ferðaþjónustan í heiminum almennt. Það ætti að takast ef við nýtum þá þekkingu sem vöxtur undanfarinna ára hefur fært okkur og ef við berum gæfu til að huga að aðstöðu og gæðum þeirrar upplifunar sem ferðamenn njóta hjá okkur.

Nokkuð hefur borðið á svartsýni vegna þess að hægt hefur á vexti ferðaþjónustunnar en að mínu mati eru slíkar áhyggjur óþarfar. Greinilegt er að eftirspurn er mikil og að erlendir aðilar hafa meiri trú á Íslandi sem áfangastað en margir Íslendingar. Við þurfum að tryggja að upplifun ferðamanna af landinu og þjónustunni sem þeir fá hér sé ánægjuleg og möguleikarnir sem blasa við okkur eru endalausir. Nú reynir á að við þroskum þessa atvinnugrein.

Oft er rætt um þörfina á innviðauppbyggingu og auðvitað vera þeir hlutir að vera í lagi hvort sem það eru vegir til að flytja ferðamenn á milli staða eða aðstaðan á áfangastöðum. Við eigum til dæmis nokkuð í land með að tryggja þá fjölbreytni í gistingu sem nauðsynleg er svo sinna megi ólíkum þörfum og væntingum ferðamanna. Gæðin hafa aukist en mikil tækifæri felast í því að fjölga hótelherbergjum af meiri gæðum. Marriot við Hörpu og Parliament hótelið við Austurvöll eru góðir áfangar á þessari leið og við eigum að stefna ótrauð áfram í sömu átt.

Líklega eru fæstir að heimsækja Ísland til að upplifa sumar og sól. Okkur finnst landið fallegast á góðum sumardegi en í hugum ferðamanna felast töfrar landsins ekki síst í mismunandi veðri og jafnvel óblíðum aðstæðum sem við Íslendingar myndum aldrei greiða fyrir að fá að upplifa. Ferðatímabilið hefur verið að lengjast og þar hefur okkur tekist vel til, jafnvel betur en mörgum öðrum. Hér eru enn tækifæri sem bíða frumkvöðla í ferðaþjónustunni.

Við þær aðstæður sem nú blasa við í efnahagslífinu þar sem aðeins hægir á hlutunum er mikilvægt að velja sér rétt sjónarhorn á hlutina. Aðstæðum nú er ýmist líkt við mjúka eða harða lendingu og því mætti halda að ekki væri verið að tala um sama hlutinn. Augljóslega erum við ekki á sama uppgangstíma nú og við höfum upplifað undanfarin misseri. Þetta getur haft erfiðar afleiðingar í för með sér fyrir bæði fyrirtæki og einstaklinga en mikilvægt er að við dettum ekki í svartsýni og komum frekar auga á þau tækifæri sem við höfum búið til og ættu að blasa við okkur.

Það er óhjákvæmilegt að mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa að breyta stefnunni og aðlaga sig breyttum aðstæðum. Þetta er eðlileg leiðrétting í atvinnugrein sem stækkað hefur í stökkum og ber að líta á sem verkefni en ekki vandamál.

Höfundur er stjórnarformaður Icelandair Group.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar en í því var ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst [email protected] .