Í Viðskiptablaðinu sem kom út á morgun fjallar Óðinn um frambjóðendurna tvo til formanns Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson og Guðlaug Þór Þórðarson. Óðinn gerir ræðu Guðlaugs Þór á sunnudag að umtalsefni. Þar útskýrði hann m.a. framboð sitt til formanns Sjálfstæðisflokksins.

Hér á eftir fer stutt brot úr skrifum Óðins en áskrifendur Viðskiptablaðsins geta lesið pistillinn í fullri lengd hér.

Athyglisverð ræða

Formaður Sjálfstæðisflokksins þarf að hafa myndugleik til að bera, þekkingu til þess að ræða hvaðeina um landsins gagn og nauðsynjar, vera fljótur að hugsa og hafa mælsku til þess að ná til fólks og þagga niður í andstæðingum.

Framboðsræða Guðlaugs Þórs á sunnudag var um margt ágæt fyrir þann hóp sem hann vildi ná til, þó hún væri full löng og sundurlaus. Hún bar með sér að vera ekki vel undirbúin og máltilfinning ráðherrans tæplega nógu örugg til þess að hann geti leyft sér að flytja óskrifaðar óyfirlesnar ræður.

Hins vegar hnaut Óðinn um tvær meinlegar staðreyndavillur í ræðunni. Ef menn vilja slá um sig með sagnfræðilegri þekkingu, tilvísunum og innsæi er alltaf betra að menn viti um hvað þeir eru að tala. Þetta var enn neyðarlegra fyrir það að Guðlaugur Þór gegndi embætti utanríkisráðherra í tæp fimm ár og ætti að vita betur en raunin var.

***

Sameinuðu þjóðirnar og þjóðin

Fyrra atriðið snýr að Íslandi og Sameinuðu þjóðunum.

„Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki þá vorum minnsta þjóð innan Sameinuðu þjóðanna og þá töluðu menn um að það væri tilraun að svo lítið þjóð væri til.“

Ísland varð sjálfstætt ríki 1. desember 1918. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar 24. október árið 1945, 27 árum seinna, en Ísland gekk raunar ekki í þær fyrr en 19. nóvember 1946. Ef Guðlaugur Þór meinti ekki það sem hann sagði, heldur átti við það þegar Ísland varð lýðveldi 17. júní 1944, þá gerðist það samt sextán mánuðum áður en Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar og tveimur og hálfu ári áður en Ísland gekk í þær. Þetta voru engin mismæli heldur meinloka, því hann endurtók þessa rangfærslu í viðtali við Vísi á þriðjudag.

***

Roosevelt og Guðlaugur Þór

Ekki batnaði það þegar Guðlaugur Þór bar sig saman við einn þekkasta Bandaríkjaforseta sögunnar:

„Þegar þið sjáið mig skakklappast hér upp. Og ég bara segi bara eitt við ykkur. Úr því Franklin Delano Roosevelt gat klárað eina heimsstyrjöld á hækjum þá getum við klárað einn landsfund.“

Roosevelt lést þann 12. apríl árið 1945, en seinni heimsstyrjöldinni lauk 2. september sama ár með formlegri uppgjöf Japana. Þjóðverjar gáfust hins vegar upp 8. maí, þremur vikum eftir andlát Roosevelt, svo honum auðnaðist nú ekki að klára heimsstyrjöldina, blessuðum.

Hann var ekki heldur á hækjum. Roosevelt fékk mænusótt árið 1921, lamaðist fyrir neðan brjóst og þurfti brátt að notast við hjólastól þá rúmu tvo áratugi sem hann lifði. Nema þegar setti á sig járnspelkur til þess að geta staðið uppréttur á almannafæri. Á þeim tíma reyndi forsetinn að halda fötlun sinni leyndri gagnvart almenningi en það er langt síðan fötlun hans varð almenn vitneskja, þó hún hafi farið fram hjá Guðlaugi Þór.

Hitt er þó kannski merkilegra að hann hafi viljað bera sig saman við Roosevelt, sem Demókratar hafa í dýrðlingatölu fyrir stóraukin ríkisumsvif og dólga-Keynesisma, sem framlengdi Kreppuna miklu um mörg ár, líkt og Milton Friedman hlaut Nóbels-verðlaun fyrir rannsóknir á.

Það er hins vegar fátíðara að hægri menn leggi nafn hans við hégóma.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaði sem kom út í morgun, 3. nóvember 2022.

Guðlaugur Þór, þá utanríkisráðherra, ávarpar 75. þing Sameinuðu þjóðanna árið 2018.