Það er mikilvægt að stjórnmálamenn geri sér grein hvaðan peningarnir koma og hverjir eiga þá. Tekjur ríkissjóðs eru þannig teknar af skattgreiðendum. Það sama er uppi á teningnum þegar kemur að lífeyrissjóðum: fé þeirra er í eigu sjóðsfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins virðist ekki gera sér grein fyrir þessari staðreynd. Í síðustu viku gagnrýndi hann lífeyrissjóðina harðlega í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni. Rætt var um hvort lífeyrissjóðir geti fellt niður vexti og verðbætur á fasteignalán Grindvíkinga sem eiga um sárt að binda. Í endursögn fréttavefsins Vísir á viðtalinu segir:

„Þess vegna segi ég, að ég bara trúi því ekki að einstaka lífeyrissjóðir séu ekki að taka utan um hvern og einn einstaka lántaka sem þarna er.Vegna þess að það er bara eitthvað óskiljanlegt og ef menn eru að fela sig á bakvið það að það þurfi einhverja lagabreytingu þá bara þurfa þeir að koma til ríkisins og segja, eða til Alþingis og segja: „Heyrðu, við viljum eðlilega eins og allir aðrir koma til móts við þetta fólk sem situr við óeðlilegar og óvenjulegar og algjörlega fordæmalausar aðstæður, en við megum það ekki, þannig að þið verðið að breyta lögunum svo við getum gert það.“ Þeir hljóta að vilja það. Það hlýtur að vera meginmálið.“

Sigurður virðist láta sér í léttu rúmi liggja að lífeyrissjóðirnir starfi eftir lögum. Þau kveða á um að hlutverk lífeyrissjóða lúti að móttöku, varðveislu og ávöxtun iðgjalda og greiðslu lífeyris. Óumdeilt er að iðgjöld falla undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.
Eins og fram kemur í áliti sem lögmannstofan Lex vann fyrir lífeyrissjóðinn Gildi er sjóðnum samkvæmt lögum óheimilt að gefa eftir vexti og verðbætur á lánum með almennum hætti. En að sama skapi hefur sjóðurinn töluvert svigrúm til þess að aðstoða lántakendur sem eiga erfitt með að standa í skilum af fasteignaláni. En til almennrar niðurfellingar til ákveðins hóps á borð við Grindvíkinga án þess að tekið sé tillit til greiðslugetu skuldara eða verðmæti undirliggjandi veða verður ekki gripið án þess að brjóta lög.

Fleiri lífeyrissjóðir hafa látið vinna sambærileg lögfræðiálit fyrir sig. Þar er komist að sömu niðurstöðu. Að vísu hefur komið fram að Verkalýðsfélag Grindavíkur og VR hafi látið gera lögfræðiálit þar sem komist er að annarri niðurstöðu. Það væri fróðlegt ef það plagg kæmi fyrir sjónir almennings.
Flestir virðast því sammála um að löggjöfin um lífeyrissjóði heimilar þeim ekki að ráðstafa sjóðsfé af vild og iðgjöld sjóðsfélaga falli undir eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það vekur því furðu að innviðaráðherra skuli láta þau orð falla að lítið mál sé að breyta lögum um lífeyrissjóði á Alþingi til þess að hægt sé að fella niður vexti og verðbætur af fasteignalánum þeirra.

Í fyrsta lagi vaknar upp sú spurning hvort nokkrum manni þyki það góð hugmynd að breyta lögunum með þessum hætti? Í öðru lagi mundu slíkar lagabreytingar stangast á við eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

En þýðir þetta að ekkert sé hægt að gera fyrir grindvíska fasteignaeigendur? Því fer fjarri. Eins og áður var minnst á þá kemur fram í lögfræðiáliti Lex að lífeyrissjóðir hafi ákveðið svigrúm til þess að koma til móts við skuldara í greiðsluvandræðum. Þar afð auki verður að teljast líklegt að breið pólitísk samstaða sé til þess að aðstoða lántaka sem eiga fasteign í Grindavík og í því ljósi þess blasir við að það fari best á þvi að ríkisvaldið bjóði fram þá hjálp og hún verði fjármagnað úr opinberum sjóðum.

Þessi leiðari birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. janúar 2024.