Tý þótti vandræðalegt að fylgjast með framgöngu Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, þingmanns Viðreisnar, í Silfrinu um helgina. Þar gagnrýndi hún ríkisstjórnina fyrir að skera ekki niður útgjöld til þess að stemma stigu við þenslu og verðbólgu. Týr fær nefnilega alltaf kjánahroll þegar þingmenn Viðreisnar þykjast vera talsmenn ábyrgrar stjórnunar ríkisfjármála.

***

Þegar rætt var um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi fyrir hálfum mánuði mættu flestir þingmenn Viðreisnar í pontu og gagnrýndu harðlega að áætlunin fæli í sér að dregið yrði úr framkvæmdum og fjárfestingaverkefnum ríkisins á næstu árum. Lýstu þeir áhyggjum yfir að nægum fjármunum væri ekki varið til löggæslu og Ríkisútvarpsins. Með öðrum orðum þá vill Viðreisn hvergi skera niður í ríkisútgjöldum. Viðreisn nefnir aldrei hvar flokkurinn sér svigrúm til hagræðingar í ríkisrekstrinum en gagnrýnir á sama tíma réttilega skort á festu við stjórn ríkisfjármála.

Það eina sem flokkurinn hefur til málanna að leggja eru klisjukenndar tillögur um sífellt hærri skattlagningu á grundvallar atvinnuvegina. Erindi Viðreisnar er því það nákvæmlega sama og Samfylkingarinnar og í raun er eini munurinn á flokkunum sá að síðarnefndi hefur lagt Evrópumálin á hilluna og þingmenn fyrrnefnda flokksins eru almennt huggulegri til fara.

***

Það var því áhugavert að heyra að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, sé nú þegar farin að undirbúa þátttöku í næstu ríkisstjórn. Hún veit sem er að allir flokkar sem eiga sæti á þingi fylkja sér að baki stefnunni um sífelldan útgjaldavöxt ríkisins – ef ekki í orði þá á borði.

Týr hefði haldið að flestir áttuðu sig á þeirri staðreynd að tilraunir til að fjármagna síaukin ríkisútgjöld og skuldasöfnun með skattahækkunum á fólk og fyrirtæki eru dæmdar til að falla. Og aukin skattlagning til að berjast verðbólgu er fyrirsláttur þar sem slíkt dregur úr sparnaði og eykur á þenslu vegna ríkisumsvifa.

Týr er einn af reglulegum pistlum Viðskiptablaðsins, en þessi birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út 4. maí.