En þarf SA þá ekki að teygja sig lengra í áttina að Eflingu?“

Að þessu spurði fréttamaður Ríkisútvarpsins Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í morgunfréttum útvarpsins á þriðjudag. Spurningin afhjúpar býsna sauðalega sýn fréttamannsins á stöðu kjaraviðræðna Eflingar og SA.

Málið snýst ekki um að SA þurfi bara að teygja sig aðeins lengra í átt að Eflingu í viðræðunum eins og spurning fréttamannsins lætur í veðri vaka. Staðreynd málsins er að SA hefur nú samið við þorra launþega á frjálsa markaðnum. Um er að ræða skammtímasamning en vinna að nýjum langtímasamning er nú þegar hafin. Augljóslega geta SA samið við Eflingu með allt öðrum hætti en samið var við Starfsgreinasambandið og VR svo dæmi sé tekið. Slíkt myndi valda enn frekari upplausn í kjaramálum en raunin er.

Sem kunnugt er þá hefur Efling boðað til kosninga um verkfallsaðgerðir. Í fyrstu munu aðgerðirnar beinast að einni hótelkeðju á höfuðborgarsvæðinu og mun því lítill hluti félagsmanna kjósa um þær. En eins og haft var eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, eftir að tilkynnt var um verkfallsboðunina eru aðgerðirnar gegn hótelunum aðeins byrjunin á víðtækari aðgerðum.

Sólveig Anna hefur réttlætt afstöðu Eflingar með því að vísa í meinta sérstöðu verkafólks á höfuðborgarsvæðinu miðað við stöðu þess á landsbyggðinni. Þá hefur hún bent á að samningar annarra verkalýðsfélaga fella ekki samningsrétt Eflingar úr gildi. Það er alveg rétt eins langt og það nær. Eigi að síður hlýtur að vera almennur skilningur á því að Efling getur ekki krafist samninga sem eru í engu samhengi við kaup og kjör sem aðrir hafa samið um.

Í ljósi þessa eru nokkrar lykilspurningar varðandi stöðuna sem fjölmiðlar hafa leitað svara við. Ein af þeim er hver sé fórnarkostnaður félagsmanna Eflingar við að missa af afturvirkum launahækkunum líkt og SGS og VR sömdu um. Sá kostnaður mun eðli málsins samkvæmt aukast eftir því sem verkfallsátök dragast á langinn. Á hvaða tímapunkti munu átök Eflingar valda félagsmönnum meiri skaða en mögulegt er að fáist bættur með nýjum samningum eftir slík átök?

Þá hafa forsvarsmenn Eflingar sagt að samningar SGS og VR feli beinlínis í sér kjararýrnun sem ekki verði við unað. Í vikunni birti Hagstofan tölur sem sýna að launavísitalan hækkaði skarpt í desember eða um 4%. Má rekja þá hækkun til þeirra kjarasamninga sem gerðir voru í mánuðinum. Þannig að útlit er fyrir að samningarnar skili kaupmáttaraukningu á þessu ári takist að halda verðbólgu viðráðanlegri á næstu misserum.

Einnig er mikilvægt að velta fyrir sér hver raunveruleg staða þeirra sem ætla að grípa til verkfallsvopnsins er. Konráð S. Guðjónsson, efnahagsráðgjafi SA, benti á áhugaverðar tölur í því samhengi á Twitter í vikunni. Þar sést að hvergi í Evrópu eru laun á vinnustund á gisti- og veitingastöðum í Evrópu hærri í evrum talið en hér á landi. Þannig eru laun á vinnustund 30 evrur á Íslandi meðan þau eru á bilinu 16-19 evrur í ríkjum á borð við Svíþjóð, Frakkland, Írland og Þýskaland.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 26. janúar 2023.