Bandaríski leikarinn og ruðningsstjarnan OJ Simpson lést í gær sökum krabbameins 76 ára að aldri. Hann var frægastur fyrir að hafa verið grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni og vini hennar að bana árið 1994.

Réttarhöldin yfir honum vöktu mikla athygli og hafa oft verið kölluð Réttarhöld aldarinnar. Simpson var að lokum fundinn saklaus að mati kviðdóms en úrskurðurinn hefur verið umdeildur alveg frá því hann var kveðinn upp árið 1995.

Nokkrum dögum eftir manndrápin kröfðust saksóknarar þess að Simpson myndi gefa sig fram. Hann var þá grunaður um morðin og átti að ákæra hann fyrir að hafa orðið Nicole Brown og Ron Goldman að bana.

OJ Simpson sagðist ætla að gefa sig fram en hætti svo við á endanum. Hann skrifaði nokkur bréf til barna sinna og uppfærði erfðaskrá sína sem varð til þess að margir töldu hann hafa framið sjálfsmorð.

Eftir að lögreglan lýsti eftir OJ tók við ein frægasta lögreglueftirför sögunnar. Vinur OJ, Al Cowlings, hafði komið Simpson fyrir í aftursætið á hvítum Ford Bronco sem var í eigu Al. Lögreglan elti Bronco-bílinn niður Interstate 5-þjóðveginn í Los Angeles.

Í augum borgarbúa var þetta afar sjaldgæf sjón, ekki aðeins vegna þess hver farþegi bifreiðarinnar var, heldur líka átti eftirförin sér stað á þjóðvegi-5 í Los Angeles á föstudagseftirmiðdegi þegar umferðin var yfirleitt mjög slæm. Þennan dag rýmdi lögreglan hins vegar allan þjóðveginn og fengu þyrlur og vegfarendur frábært útsýni af eftirförinni áður en OJ gafst upp á endanum.

Bíllinn situr við hlið dauðabíls Bonnie og Clyde svokallaða, þakinn götum eftir byssuskot.
© Skjáskot (Skjáskot)

Bíllinn sjálfur endaði svo að lokum á Alcatraz East Crime-safninu í Tennessee-ríki. Þar situr hann ásamt öðrum sögufrægum bílum á borð við 1968 Volkswagen bjölluna sem var í eigu raðmorðingjans Ted Bundy og 1933 árgerð Essex-terraplane sem bankaræninginn John Dillinger rúntaði um á.

„Það eru sumir atburðir í sögunni sem munu alltaf festast í huga fólks og ég held að eftirför OJ Simpson sé einn af þeim atburðum í augum margra. Viðbrögð fólks eru vissulega mismunandi eftir kynslóðum og bregst fólk öðruvísi við að sjá bílinn,“ segir Ally Pennington, verkefnastjóri safnsins.