Birgir Jónsson, trommari og forstjóri Play, ræðir um væntanlega plötu hljómsveitar hans og Aðalbjörns Tryggvasonar, Bastarðar, í Viðskiptablaðinu sem kom út fyrir helgi. Hann segir viðbrögð þeirra sem hafa hlustað á plötuna vera mjög góð og að Bastarður muni halda áfram að gera tónlist.

„Franska útgáfufyrirtækið er mjög metnaðarfullt, það er verið að gefa út alls konar vínylútgáfur í lituðum vinyl og það er byrjað að prenta boli og allt þetta. Ég get samt ekki neitað því að líf mitt hefur breyst svolítið frá því að þetta verkefni fór í gang, en ég vona að ég fái að vera með. Það eru auðvitað aðeins aðrar áherslur í lífi mínu núna, þannig að ég veit ekki alveg hversu mikið ég get tekið þátt, menn vilja væntanlega fara að túra og allt það sem þessu fylgir," segir Birgir.

Það er auðvelt að ímynda sér að tónleikaferðalög henti ekki vel fyrir forstjóra flugfélags sem nýlega hóf sig til flugs en Birgir segir það heldur ekki vera það sem hann vill gera í lífinu.

„Hljómsveitir eins og Sólstafir, sem leggur vinnuna í þetta eins og þeir hafa gert, fara út og spila kannski í Varsjá á þriðjudagskvöldi, þar sem það koma 800 manns að sjá þá, og keyra svo kannski í einhverja átta tíma yfir til Dortmund þar sem aðrir 800 mæta. Maður býr þannig kannski einhverjar sex vikur í rútu, sem var ekki alveg það sem mig langaði að gera í lífinu, enda ekkert upp úr þessu að hafa þannig lagað," segir hann.

Biggi segist ekki eiga von á því að gera mikið fleiri þungarokksplötur, haldi líf hans áfram á sömu braut.

„Þannig að mér finnst svolítið töff að klára þetta með þessari plötu. Þetta er harðasta plata sem ég hef spilað á og örugglega sú plata sem ég er hvað stoltastur af trommulega séð. Það var ekkert auðvelt að spila þetta, það er ekkert fyrir næstum fimmtuga skrifstofumenn að spila svona tónlist." Hann finnur enda fyrir því að erlendir blaðamenn lyfti brúnum yfir fimmtuga flugforstjóranum sem er í þungarokki. „Maður finnur það alveg þegar maður er að tala við erlenda blaðamenn sem hafa aðeins gúgglað mann að þeir hugsa bara „hvað er eiginlega að frétta eiginlega með þig, hver ert þú eiginlega"," segir hann hlæjandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .