Jón G. Baldvinsson hefur gefið út veiðibókina „Norðurá enn fegurst áa". Í tilefni útgáfunnar verður bókin kynnt í verslun Veiðiflugna á Langholtsvegi 111 í dag, fimmtudag, frá klukkan 16 til 19.

Norðurá enn fegurst áa inniheldur leiðarlýsingu þar sem Jón fer með Norðurá frá upptökum til ósa og lýsir veiðistöðum árinnar í fallegri frásögn. Fyrir utan veiðistaðalýsingar Jóns eru nokkrar greinar og viðtöl í bókinni svo og fjöldinn allur af fallegum ljósmyndum eftir ýmsa þjóðþekkta ljósmyndara.

Jón er landsþekktur veiðimaður. Hann er fyrrverandi formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem og Landssambands stangaveiðifélag. Þá sat hann í stjórn NASF (Verndarsjóði villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi) sem stofnaður var og stýrt af Orra Vigfússyni.

Veiðiáhuginn Jóns vaknaði mjög snemma og fyrstu veiðiferðirnar fór hann í Elliðavatn og Meðalfellsvatn frá 13 ára aldri. Fyrsta laxinn veiddi hann í Korpu í ágúst árið 1961, þá 17 ára gamall. Norðurá veiddi hann fyrst árið 1967 og hefur æ síðan átt sérstakt og ástríkt samband við ána, veitt hana sjálfur ásamt því að segja ótal mörgum til við veiðar í ánni.

Hér eru nokkrar umsagnir um bókina.

Friðrik Þ. Stefánsson:

„Þekking Jóns á Norðurá er einstök. Hann hefur ritað leiðarlýsingu þar sem hann fer með Norðurá frá upptökum til ósa og lýsir veiðistöðum árinnar, aðkomu að þeim, staðháttum og straumlagi hyljanna, líklegum tökustöðum og deilir með lesandanum minningabrotum frá einstaka veiðistöðum. Þessi innsýn Jóns í undraheim Norðurár birtist nú lesendum hér í bókarformi og mun án efa koma öllum að gagni sem hug hafa á að læra á Norðurá en ekki síður er það skoðun mín að hún verði lesendum til ánægju og yndisauka.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir:

„Bók Jóns er afbragðs góð og lýsir mikilli innsýn hans á ánni. Ég hef veitt í Norðurá í mörg ár og er hún ein af mínum uppáhalds ám. Við Jón erum sammála um hverjir eru fallegustu veiðistaðirnir enda erum við bæði aðdáendur Breiðunnar og Víðinesstrengja eða Skarðshamrafljóts, þar sem gjarnan er mikið um lax.
Gríðarleg þekking Jóns á Norðurá og næmni fyrir landslagi og veiði er heillandi. Ég fagna bókinni sérstaklega þar sem hún er nákvæm og lýsandi sem mun nýtast mér vel við veiði í Norðurá en er ekki full af grobb sögum sem allt of oft einkennir sumar veiðibækur.“

Bubbi Morthens :

„Jón G. Baldvinsson hefur loksins skrifað bók um ána sína, Norðurá, og um leið reist sér sinn bautastein. Því ættu allir unnendur stangveiðinnar að fagna. Þetta er falleg bók, kennslubók fyrir þá sem vilja veiða í Norðurá. Bók sem er höfundi sínum til sóma.“

Bjarni Brynjólfsson:

„Bók Jóns er happafengur fyrir alla veiðimenn og unnendur góðra veiðibókmennta – ekki síst þá sem ætla sér að læra á Norðurá sem er margslungin á og ógnarfögur.“