Nýr og breyttur Range Rover (L460) er væntanlegur í sýningarsal Jaguar Land Rover við Hestháls í júní. Karl Óskarsson, sölustjóri Range Rover hjá BL, segir að bíllinn sé nýr frá grunni, svo miklar séu breytingarnar þótt „kjarnagenið“ sé að sjálfsögðu á sínum stað.

„Þeir sem þekkja Range Rover velkjast ekki í vafa um merkið, en ég er ekki í vafa um að tækninýjungarnar munu falla í góðan jarðveg,“ segir Karl.

„Ég get nefnt sem dæmi að á kynningu sem við fengum á vegum og vegleysum í nágrenni Dusseldorf í vetur fengum við bæði kafsnjó og glerhálku og það var ótrúlegt að upplifa aksturseiginleikana, sérstaklega á leið niður brekku í flughálku þar sem brekkubremsan kom virkilega að góðum notum. Síðan er bíllinn flottari en ég átti von á. Við vorum búin að fá sendar myndir, en þær segja eiginlega ekki nema hálfa söguna. Maður verður að sjá og upplifa bílinn til að skilja breytinguna til fulls.“

Nýr Range Rover er aðeins stærri en fráfarandi gerð miðað við lengd og hæð en meðal helstu nýjunga má nefna að nú verður hann í fyrsta sinn fáanlegur í sjö manna útgáfu eins og fram kom á frumsýningu framleiðandans í Óperuhúsinu í Lundúnum í lok október. Önnur nýjung er að bíllinn hefur aðeins 10,9 metra beygjuradíus enda beygir hann á öllum hjólum.

Allt að 530 hestöfl

Þegar nýr Range Rover verður kynntur hér á landi í júní verða nokkrar vélarútfærslur í boði; 250, 300 og 350 hestafla sex strokka dísilvélar ásamt átta strokka 530 hestafla bensínvél. Fyrir árslok kemur bíllinn svo í tengiltvinnútgáfu (bensín/PHEV), annars vegar 430 hestöfl og hins vegar 510 hestöfl, þar sem drægnin er nálægt 100 kílómetrum við góðar aðstæður.

Áætlanir framleiðandans gera ráð fyrir að alrafmögnuð útgáfa Range Rover verði í boði frá og með árinu 2024.

Ranger Rover verður sem fyrr boðinn í útfærslunum SE, HSE, Auto biography og SV og verður grunnverð bílsins frá 21.490 þúsund krónur. Nánari grein verður gerð fyrir tækninýjungum nýs Range Rover þegar nær dregur frumsýningu, en nú þegar má nálgast frekari upplýsingar á Landrover.is.