Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvogen and Alvotech, var viðtalsefni í hjólreiðatímaritinu Rouleur á dögunum þar sem hann sagði frá því hvernig hann varð einn af bestu hjólreiðamönnum Íslands og frá því slysi sem hann lenti í.

Í greininni kemur fram að líftæknigeirinn og hjólreiðar eigi náið samband, en hvað Róbert varðar var það í raun tilviljun.

Um 2010 tók Róbert þátt í þríþraut hjá fyrirtæki sínu til styrktar Unicef. Á þeim tíma gat hann varla synt, var of þungur fyrir hlaupara og hafði ekki hjólað síðan hann var 12 ára. Hann tók hins vegar eftir því hversu fljótur hann var að ná hæfileikanum á ný, jafnvel á fimmtugsaldri.

„Ég fæddist til að vera á hjóli. Ég byrjaði að hjóla með fullt af strákum sem höfðu hjólað í sex, sjö, átta ár, sem voru yngri en ég, en ég var þegar farinn að hjóla hraðar en þeir. Ég var tæknilega séð hræðilegur hjólreiðamaður og það vildi enginn hjóla við hliðina á mér því ég var svo slæmur, en ég var mjög fljótur,“ segir Róbert í viðtalinu.

Árið 2013 lenti Róbert hins vegar í alvarlegu hjólreiðaslysi og braut meðal annars tvo efstu hryggjaliði. Hann man ekkert eftir slysinu, sem átti sér stað á Krýsuvíkurvegi, en á þeim tíma var hann að hjóla á eftir bílum. Einn af þeim bílum hafði snögglega staðnæmst á miðjum vegi og Róbert klessti á hann á fullum hraða og missti meðvitund.

Róbert segist hins vegar hafa litið fram á við og að slysið hafi ekki haft neikvæð áhrif á sjálfstraustið. Hann segir að þetta sé allt spurning um hvernig menn takist á við það að lenda í svona slysi.

„Fólk ofhugsar oft um það sem gerðist, hvers vegna það gerðist, hverjum það sé að kenna og talar endalaust um það. Í viðskiptum vil ég alltaf taka næsta skref. Við erum komin hingað og getum ekki breytt hinu. Hvert erum við að fara og hvernig komumst við þangað og hvernig lögum við það?“