Tvö ár eru síðan VW ID 3 kom á markað hérlendis, fyrsti sérhannaði rafbíllinn af nýrri kynslóð frá Volkswagen. ID.4 var svo kynntur í fyrra. Þróunin heldur áfram og nú er nýkominn ID.5 sem byggður er á sama undirvagni en er sportlegri í byggingarlagi og lítið eitt lengri og lægri en ID.4. Bíllinn var kynntur blaðamönnum í Týról í Austurríki í síðasta mánuði.

VW hefur langa reynslu af framleiðslu rafbíla og sá fyrsti frá þýska framleiðandanum var Elektro Transporter frá 1972, sem hafði 70 km drægi. Nú er öldin önnur. VW hefur tilkynnt um nýja kynslóð sérhannaðra rafbíla undir merkinu ID. ID.3 kom 2019, ID.4 í fyrra og nú loks ID.5 en í Evrópu er líka kominn raffjölnotabílinn ID.Buzz.

ID.5 er markaðssettur sem sportjeppi þótt það sé kannski ekki margt jeppalegt við hann. Hann er samt þægilegur í umgengni og gott að setjast inn í hann og stíga út úr honum. Í GTX-útfærslu er hann með tveimur rafmótorum og fjórhjóladrifi, sem er vissulega nokkuð sem markaður hér kallar eftir. Hann er líka mun sportlegri útlits en ID 4 vegna kúpulaga formsins, og nokkru lengri (15 mm) og lægri. Auk auk þess kemur hann með kraftmeiri rafaflrás, 220 kW eingöngu. ID.5 er sem sagt í boði í tveimur gerðum hér, þ.e. afturhjóladrifinn Pro og fjórhjóladrifinn GTX, báðir með 77 kWst rafhlöðu.

Kraftar í kögglum

ID.5 er laglegur á að líta og frágangur að innan eins og gerist bestur. Stór upplýsingaskjárinn er einfaldur í notkun og eins og orðið er í flestum rafbílum þarf ekki að taka lykilinn úr vasanum. Sjálfvirk ræsing og kerfið slekkur svo á sér sjálft þegar bíllinn er yfirgefinn.

Uppgefin hröðun á GTX er 6,3 sekúndur og það finnst þegar bílnum er gefið vel inn að það eru kraftar í kögglum. Allar gerðir ID.5 koma með 77 kWst rafhlöðu og drægið er sagt allt að 523 km fyrir Pro-útfærsluna afturhjóladrifnu og 493 km fyrir GTX samkvæmt WLTP. Uppgefin eyðsla síðarnefndu útfærslunnar er 17,9 kWst á 100 km. Hleðslutími á GTX upp í 80% er 36 mínútur í hraðhleðslu. Ekki gafst tækifæri til að sannreyna þetta allt saman í stuttum reynsluakstri en í raunheimum og í kuldanum á Íslandi er drægið að sjálfsögðu umtalsvert minna.

ID.5 er ekkert sérstaklega sportlegur í akstri þótt hann státi af ágætri hröðun en hann er rásfastur og það fer þægilega um ökumann og farþega í þessum rúmgóða bíl. Pláss í aftursætum er mjög ríflegt og þrátt fyrir kúpulaga formið og stóra sóllúguna, sem er reyndar inni í aukahlutapakka, er lofthæðin hvergi að þrengja að mönnum. Farangursrýmið er líka drjúgt, 549 lítrar, en enga hirslu er að finna undir „vélarhlífinni“.

Þeir sem gjarnan draga mikið á eftir sér á ferðalögum geta glaðst yfir því að GTX státar af 1.200 kg dráttargetu og Pro-útfærslan 1.000 kg.

ID.5 er skemmtileg viðbót í rafbílaflóruna og virðist afar vel smíðaður bíll. Innanrýmishönnunin er nútímaleg án þess að vera sérkennileg, eins og stundum vill brenna við í rafbílum. Efnisval er í hæsta gæðaflokki í dýrari útfærslum bílsins. Fjöldi aukahlutapakka er fáanlegur í ID.5 en þeir hækka verðið líka grimmt. Ódýrasta útfærslan, ID.5 Pro, kostar frá 6.590.000 kr. og GTX-útfærslan er frá 7.690.000 kr.

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.