Kastrup hefur skipað sér sess meðal vinsælustu veitingastaða landsins. Matseðillinn samanstendur af sígildu smurbrauði sem flestir þekkja og getur varla klikkað í hádeginu.

Rauðsprettan er ljómandi góð og það sama má segja um rækju- og síldarréttina og nautarartarsins. Auk þess er hægt að fá þyngri rétti í hádeginu á borð steik og franskar, piparsteik og schnitzel auk léttara salats.

Flaggskipið er heilsteiktur sólkoli í sítrónu og capers. Sólkoli er einn besti matfiskur sem veiðist hér við land en hátt verð sem fyrir hann er greitt ferskan á mörkuðum í Bretlandi og annar staðar hefur gert það að verkum að hann hefur verið sjaldséður á veitingahúsum bæjarins. Þannig að það er fagnaðarefni að þeim sem langar í annan fisk en löngu eða þá eldisfisk standi það til boða gegn sanngjörnu verði.

En eins og Jón Mýrdal veitingamaður á Kastrup hefur sagt í fjölmiðlum þá endurspeglar verðlagning á réttum hans að verið sé að höndla með gott hráefni og ofan á það bætast aðrir dýrir rekstrarþættir á borð við launakostnað. Óhætt er að fullyrða að ekkert er slegið af í þeim efnum á Kastrup. En sökum þessa þá höfðar Kastrup fyrst og fremst til fólks með mikinn kaupmátt og þá sérstaklega fólks í sérfræðistörfum hjá íslenska ríkinu.

Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn, 16. júní 2023.