Á ári hverju heimsækir fjöldi Íslendinga Kanaríeyjar, sem staðsettar eru við strendur Vestur-Afríku en tilheyra Spáni. Þar er Tenerife, sem er stærst eyjanna átta, vinsælasta stelpan á ballinu enda fljúga þangað mörg þúsund Íslendingar í hverjum mánuði.

Auk þess hefur mikill fjöldi Íslendinga gengið skrefinu lengra og flutt búferlum þangað. Einn þeirra er veitingamaðurinn og lífskúnsterinn Níels Hafsteinsson sem stundar veitingarekstur á eyjunni góðu.

Eins og sönnum Íslendingi sæmir heimsótti sá sem þetta skrifar nýverið Tenerife. Á meðan dvölinni stóð var landsleikur A-landsliðs karla í knattspyrnu gegn fjármálaveldinu Lúxemborg á dagskrá og þá kom aðeins einn staður sem sýndi leikinn til greina; sportbarinn St Eugen‘s. Undir sama þaki er rekinn veitingastaðurinn Smoke Bros, en fyrrnefndur Níels er eigandi beggja staðanna ásamt viðskiptafélögum sínum.

Matseðillinn á Smoke Bros er fjölbreyttur en eins og nafn staðarins gefur til kynna er reykofninn í aðalhlutverki og hægt að panta ýmsa hægeldaða vöðva sem vandfundnir eru á öðrum veitingastöðum eyjunnar. Eftir nokkurn valkvíða varð Picanha steikin fyrir valinu hjá undirrituðum. Hún stóð undir væntingum og gott betur. Þá var bragðað á burrito þar sem rifið svínakjöt var í aðalhlutverki, auk ýmiss meðlætis, sem var hvert öðru betra.

Þó að leikurinn sem var í gangi meðan á máltíðinni stóð sé einn versti landsleikur í manna minnum tókst honum ekki að varpa skugga á matarupplifunina.

Veitingarýnin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn, 18. október 2023.