Auður Daníelsdóttir hefur verið ráðin sem forstjóri Orkunnar IS, rekstrarfélags í fullri eigu Skeljar fjárfestingafélags. Hún mun taka til starfa um mitt sumar, að því er kemur fram í tilkynningu Skeljar til Kauphallarinnar.

Auður kemur til Orkunnar frá Sjóvá þar sem hún hefur starfað frá árinu 2002 sem framkvæmdastjóri starfsmanna- og rekstrarmála, framkvæmdastjóri tjónasviðs og nú síðast sem framkvæmdastjóri sölu og ráðgjafar. Þar áður starfaði hún sem starfsmannaráðgjafi hjá PwC og sem fulltrúi í hagdeild Samskipa.

Auður er með Cand.Oecon gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands og lauk námi í starfsmannastjórnun frá HÍ og AMP stjórnendanámi frá IESE í Barcelona.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Orkunnar:

„Það er mikill fengur að fá Auði sem forstjóra Orkunnar, hún hefur mikla þekkingu af rekstri og stjórnun og mun efla Orkuna og dótturfélög til betri verka.“

Rekstur Orkunnar nær til 73 þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfjavals, Íslenska vetnisfélagsins og Gló. Félagið fer auk þess með eignarhald í félögunum Brauð & Co og Wedo, móðurfélag Heimkaupa.

Auður Daníelsdóttir:

„Ég hlakka til að takast á við spennandi verkefni með starfsfólki Orkunnar. Fyrirtækið er á áhugaverðum stað þar sem breytingar hafa verið miklar og tækifærin mörg. Þjónusta við viðskiptavininn hefur alltaf skipað mikilvægan sess í mínum störfum og mun gera það áfram. Það liggja einnig mikil tækifæri í orkugeiranum og ekki hvað síst frá umhverfis- og sjálfbærni hliðinni."