Þjónustu- og ráðgjafafyrirtækið Maven hefur ráðið til sín fimm nýja starfmenn. Þau eru Sigrún Inga Ólafsdóttir, Darri Rafn Hólmarsson og Einar Þór Gunnlaugsson sem öll eru gagnasérfræðingar; Ragnar Stefánsson, sem er sérfræðingur í gagnavísindum og Erna Guðrún Stefánsdóttir, sem er nýr mannauðs- og skrifstofustjóri Maven.

Sigrún Inga Ólafsdóttir er gagnasérfræðingur hjá Maven. Hún hefur lokið BSc í heilbrigðisverkfræði og BSc í hugbúnaðarverkfræði, hvoru tveggja í Háskólanum í Reykjavík. Sigrún starfaði áður sem gagnasérfræðingur og verkefnastjóri hjá lyfjafyrirtækinu Medis.

Darri Rafn Hólmarsson er gagnasérfræðingur á starfstöð Maven á Akureyri. Hann hefur lokið BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Darri kemur til Maven frá Advania þar sem hann starfaði meðal annars sem ráðgjafi og verkefnastjóri á sviði viðskiptalausna.

Einar Þór Gunnlaugsson er gagnasérfræðingur með MSc gráðu í upplýsingatæknikerfum (Information Systems) frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð og BSc í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá Háskóla Íslands. Einar starfaði sem gagnasérfræðingur með áherslu á tækninýjungar og nýtingu gagna í Svíþjóð áður en hann var ráðinn til starfa hjá Maven.

Ragnar Stefánsson er sérfræðingur í gagnavísindum með MSc gráðu í gagnavísindum frá Háskólanum í Reykjavík og BSc gráðu í tölvunarfræði frá sama skóla. Áður en Ragnar kom til Maven starfaði hann, í samstarfi við Háskólann í Reykjavík, fyrir WildLife Studios sem hannar farsímaleiki sem milljónir leikmanna um allan heim spila daglega. Hans hlutverk þar var að búa til spálíkön byggð á hegðunarmynstri notenda.

Erna Guðrún Stefánsdóttir er nýr mannauðs- og skrifstofustjóri hjá Maven með BSc í viðskiptafræði og er að ljúka MSc í mannauðsstjórnun, hvoru tveggja frá Háskólanum á Bifröst. Erna kemur með ríka starfsreynslu frá KPMG þar sem hún hefur komið að alhliða bókhaldi fyrir hin ýmsu félög ásamt því að hafa komið að mannauðsmálum innan bókhaldssviðs félagsins.

„Við erum hæstánægð með að geta boðið þennan öfluga hóp af sérfræðingum velkominn til starfa til okkar. Stjórnendur og fólk almennt eru farin að gera sér grein fyrir mikilvægi og virði gagna til að mynda í gervigreind og vélnámi (e. Machine learning), þar sem sjálfvirknivæðing og skýjalausnir gera fyrirtækjum kleift að nýta gögn betur án mikillar fjárfestingar eða skuldbindingar,“ segir Helgi Hrafn Halldórsson, framkvæmdastjóri Maven.“