Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur tekið ákvörðun um að skipa Hildigunni H. H. Thorsteinsson í embætti forstjóra Veðurstofu Íslands til næstu fimm ára. Hún verður skipuð í embættið frá og með 1. júní næstkomandi.

Átta sóttu um embættið embætti forstjóra Veðurstofu Íslands sem var auglýst í nóvember síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins.

Hildigunnur hefur starfað sem tæknistjóri (CTO) hjá Innargi A/S í Kaupmannahöfn frá árinu 2022. Hún starfaði sem verkfræðingur hjá Enex hf. í Reykjavík á árunum 2005-2006 og sem verkefnastjóri hjá Iceland America Energy Inc. í Los Angeles 2008-2009.

Hildigunnur var tæknistjóri í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington árin 2009-2011 og síðar teymisstjóri á jarðvarmasviði í sama ráðuneyti 2011-2012. Árið 2013 tók Hildigunnur við stöðu framkvæmdastýru rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sinnti því starfi til ársins 2022.

Hildigunnur er með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og lauk MSc gráðu í Technology and Policy frá Massachusetts Institute of Technology árið 2008.