Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Klaks– Icelandic Startups hefur sagt starfi sínu lausu og mun á nýju ári ganga til liðs við Leitar Capital. Kristín Soffía tók við rekstri Klaks í júní 2021 og mun sinna starfi framkvæmdastjóra áfram næstu vikurnar.

Leitar Capital Partners er nýstofnað félag sem hyggst fjárfesta í ungu fólki og styðja það við að finna fyrirtæki til að kaupa og reka. Félagið lauk nýlega 1,5 milljarða fjármögnun á fyrsta fjárfestingarsjóði félagsins. Kristín Soffía verður fyrsti leitari félagsins, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Það er galið að segja upp í skemmtilegasta starfi sem ég hef sinnt en það er samt að gerast. Ég hef verið heppin með bæði stjórn og starfsfólk og er stolt af þeim árangri sem við höfum náð í sameiningu. Hlutverk Klaks er að hvetja fólk til verðmætasköpunar og það er óhætt að segja að krafturinn í húsinu hafi orðið mér hvatning til að taka stökkið sjálf. Ég er spennt fyrir framhaldinu og held að ég muni örugglega tengjast KLAK áfram á einn eða annan hátt,“ segir Kristín Soffía.

„Það er óhætt að segja að Kristín Soffía hafi haft mikil og jákvæð áhrif á rekstur og velgengni Klak undanfarin ár og hefur það verið félaginu mikill fengur að fá að hafa notið starfskrafta hennar. Fyrir hönd stjórnar Klak þakka ég henni fyrir frábært samstarf og óska henni góðs gengis í nýjum og spennandi verkefnum. Nýsköpunarsamfélagið fær vonandi áfram að njóta krafta hennar í að stuðla að uppbyggingu og vexti nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi,“ segir Soffía Kristín Þórðardóttir, stjórnarformaður Klaks.

Klak er helsti stuðningsaðili nýsköpunar á Íslandi og rekur árlega þrjá viðskiptahraðla, frumkvöðlakeppnina Gulleggsins auk þess sem þau bjóða upp á vinnustofur og mentoraþjónustu fyrir styrkþega Tækniþróunarsjóðs.

Staða framkvæmdastjóra hjá Klaki verður auglýst á næstunni en áhugasömum er bent á að hafa samband við Sverri Briem hjá Hagvangi.