Sindri Snær Einarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaðsmála og vaxtar hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Arctic Adventures.

Sindri Snær hefur reynslu af stafrænni þróun, markaðssetningu og markaðsstörfum, meðal annars hjá Krónunni, vefstúdíóinu Frumkvæði og við þróun á vefsvæðinu Áttavitanum. Hann er með meistaragráðu í stafrænni stjórnun frá Hyper Island í Stokkhólmi, BS-gráðu í viðskipta- og markaðsfræði frá Háskólanum á Akureyri og diplóma próf í tölvunarfræði.

Gréta María Grétarsdóttir, forstjóri Arctic Adventures:

„Sindri Snær kemur með mikilvæga reynslu og þekkingu á sviði stafrænnar þróunar og markaðssetningar sem mun hjálpa okkur við að ná markmiðum okkar um að bæta stöðugt stafræna upplifun viðskiptavina okkar, auka sölu, sjálfvirkni og styrkja ásýnd á vörumerki félagsins. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn í teymið okkar.“

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Fyrirtækið skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar. Um 200 manns starfa hjá fyrirtækinu, á Íslandi og í Vilnius, en fyrirtækið keypti nýverið tvö fyrirtæki í ferðaþjónustu sem sérhæfa sig í ferðum um Alaska og Kanada. Kaupin eru liður í stefnu Arctic Adventure að vera leiðandi fyrirtæki í ferðaþjónustu á norðurslóðum.