Indó, nýr íslenskur sparisjóður sem leggur áherslu á einfalda og gagnsæja bankaþjónustu, hefur ráðið sjö starfsmenn. Í tilkynningu indó kemur fram að nú standi yfir prófanir með lokuðum hópi áhugasamra aðila sem hafa skráð sig á biðlista hjá indó og mun prófarahópurinn fara ört stækkandi þar til indó opnar fyrir alla síðar á árinu.

Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir er nýr markaðsstjóri indó. Hjördís Elsa kemur frá Krónunni þar sem hún stýrði markaðsmálum Krónunnar síðastliðin ár, nú síðast sem forstöðumaður markaðs- og umhverfismála. Hjördís er með MS gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands.

Einar Björgvin Eiðsson er nýr vörustjóri indó. Einar sem er búsettur í Stokkhólmi kemur frá hinum sænska Klarna Bank þar sem hann vann að stækkun og rekstri bankans. Einar er iðnaðarverkfræðingur frá Konunglega Tækniháskólanum í Stokkhólmi og með MBA gráðu útgefna í sameiningu frá New York University, London School of Economics og HEC Paris.

Stefanía Sch. Thorsteinsson er nýr áhættustjóri indó. Stefanía hefur starfað sem skrifstofustjóri áhættustýringar hjá Reykjavíkurborg. Þar áður sem sérfræðingur í áhættugreiningu hjá Fjármálaeftirlitinu, nú Seðlabanka Íslands, og Arion banka. Stefanía er stærðfræðingur frá Háskóla Íslands, er löggildur verðbréfamiðlari og með diplómagráðu í fjárhagslegri áhættugreiningu og ákvörðunartöku.

Lilja Kristín Birgisdóttir er nýr verkefnastjóri stafrænna markaðsmála hjá indó. Lilja kemur frá Krónunni þar sem hún starfaði sem sérfræðingur í markaðs- og umhverfismálum síðustu ár. Lilja er með BA gráðu í stjórnmálafræði og er að ljúka MS gráðu í markaðsfræði frá Háskólanum á Bifröst.

Sara Mildred Harðardóttir er nýr þjónustustjóri indó. Sara stýrði áður þjónustuveri Reykjavík Sightseeing og er með BA gráðu í mannfræði og viðskiptafræði og stundar nú meistaranám í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands.

Hermann Guðmundsson og Valgerður Kristinsdóttir eru nýir forritarar hjá indó. Hermann hefur stundað nám í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík og NOVA í Virginíuríki í Bandaríkjunum og Valgerður er með BS gráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands.

Sjá einnig: Indó skrefi nær markaði

„Við erum ótrúlega ánægð og stolt af því að fá þetta frábæra fólk til liðs við okkur. Við eigum það öll sameiginlegt að brenna fyrir indó og þeim jákvæðu breytingum sem við ætlum að stuðla að á íslenskum bankamarkaði. Það sem stendur upp úr er hversu samheldinn og góður hópurinn er og það er einhvern veginn eins og fólkið sem hefur nú gengið til liðs við okkur hafi fylgt okkur frá upphafi. Með þessu topp fólki munum við getað opnað dyrnar að indó fyrir öllum nú í haust og boðið upp á frábæra þjónustu og sanngjörn kjör,” segja Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, stofnendur indó.

Starfshópur indó.