Kjartan Ragnars lögmaður var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs. Náms- og starfsferill hans er nokkuð óhefðbundinn, en hann hefur alltaf fetað ótroðnar slóðir, eða í það minnsta valsað nokkuð frjálslega á milli þeirra troðnu, ef svo má að orði komast. „Það hefur alltaf einkennt mig að ég fæ ákveðna þráhyggju fyrir flestu sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir Kjartan.

„Ef ég fæ einhverja flugu í hausinn og hún heltekur mig, þá kýli ég bara á hana af fullum þunga,“ segir hann og tekur dæmi af því þegar hann ákvað 19 ára gamall að hætta í námi og gerast atvinnumaður í póker.

„Eðlilega fékk þetta nokkuð dræmar undirtektir, og fólk reyndi að koma vitinu fyrir mig, en úrtölur annarra hafa aldrei truflað mig. Ef eitthvað er þá hlakkar stundum í mér og ég verð enn staðráðnari.“ Hann segist þó fullmeðvitaður um hættur þess að losa sig alfarið úr viðjum samfélagsnormsins.

Las efnið fjórum sinnum áður en hann byrjaði
Upp úr 21 árs átti Kjartan því enn nokkuð eftir upp í stúdentsprófið þegar hann ákvað að hann vildi verða lögfræðingur. Eftir að hafa keyrt af krafti í gegnum allt grunnnámið fór eirðarleysið að segja til sín, og Kjartan tók sér tveggja ára hlé frá námi og réði sig í vinnu sem öryggisvörður. „Aftur fann ég að vinir og vandamenn höfðu áhyggjur af mér og vildu hafa vit fyrir mér.“

Að lokum kom þó að því að Kjartan fylltist eldmóði fyrir lögfræðinni á ný og vildi spreyta sig á lögmennsku, en í framhaldsnáminu var hann beðinn um að ganga til liðs við Myntkaup, sem síðar leiddi til áhuga hans á Bitcoin og rafmyntum, og að lokum ráðningarinnar til Rafmyntaráðs.

Kjartan var ráðinn á lögmannsstofuna Rétt nokkrum dögum eftir útskrift úr hdl. námskeiðinu, áður en hann hafði formlega útskrifast úr lögfræðinni. „Þá breyttist tónninn í fólki strax og ég þótti vera kominn á frábæra hillu í lífinu.“

Stofnaði eigin stofu hálfu ári eftir ráðningu
Hann staldraði hinsvegar sjálfum sér samkvæmt ekki lengi við, en á stofunni endurnýjaði hann kynnin við gamlan vin, Birki Má Árnason, sem hafði starfað þar lengi. Aðeins tæpu hálfu ári eftir ráðninguna höfðu þeir sagt störfum sínum lausum til að stofna eigin lögmannsstofu. Úr varð Cicero lögmannsstofa sem Kjartan rekur með Birki samhliða stöðu sinni hjá Rafmyntaráði.

„Er ég áhættusækinn? Ég veit það ekki, já kannski. Ég upplifi þetta bara þannig að ég hugsa dæmið til enda og spyr mig einfaldlega hverju ég hafi að tapa, kemst einhvernveginn alltaf að þeirri niðurstöðu að það sé ekki mikið, og held á vit örlaganna,“ segir Kjartan að lokum.

Nánar er rætt við Kjartan í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .