*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 4. apríl 2020 19:01

1.000 afbókanir á 10 dögum

Hótelstjóri á Norðurlandi enn jákvæður á rekstrarárið en framkvæmdastjóri á Austurlandi segir 6 mánaða lenging lána ekki duga.

Höskuldur Marselíusarson
Ívar Ingimarsson var á árum áður liðtækur í knattspyrnu en flutti árið 2012 eftir frækinn atvinnumannaferil á Englandi á heimaslóðir á Austurlandi og rekur þar gistiheimili.
Aðsend mynd

Sex mánaða lenging lána dugir ekki fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni, þar sem lítil sem engin innkoma er yfir háveturinn, að sögn Ívars Ingimarssonar, eiganda gistihúss á Austurlandi. COVID-19 ekki bara vandamál ferðaþjónustunnar því virðiskeðja hennar liggi út um allt.

Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri hvalaskoðunarfyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík, segir að félagið hafi farið í sína síðustu siglingu í bili þann 20. mars síðastliðinn eftir hraðar afbókanir dagana á undan. Þó að félagið hafi upphaflega tilkynnt um lokun til 10. apríl sér hann nú fram á að það verði lengur.

Annar heimildarmaður Viðskiptablaðsins sem rekur hótel á Norðurlandi segir óvissuna vissulega mikla þessa dagana, enda blómlegasti árstími hótelreksturs að renna upp, en hann hafi mátulegar áhyggjur. Bendir hann á að reksturinn hafi gengið þannig fyrir sig síðustu ár að hótelið safni einhverjum skuldum yfir veturinn og svo fari tekjurnar að koma hressilega inn á vorin og sumrin, sem jafni stöðuna út og rúmlega það.

Framan af hafi þetta vor stefnt í að verða mjög gott og hann hafi heyrt frá fleirum í bransanum að bókanastaðan og fleira hafi litið mjög vel út. Hótelið fékk síðan hátt í 1.000 afbókanir á 10 daga tímabili þegar bókanir fyrir seinni hluta mars og allan apríl hafi þurrkast út og þar með hafi allar vonir um metvor farið út um gluggann.

Sumarið líti samt áfram mjög vel út enda finnist honum fólk vera að halda í sér enn sem komið er með að afbóka sumarið. Því sé hann heilt yfir enn mjög jákvæður á rekstrarárið framundan, svona miðað við aðstæður.

Ívar Ingimarsson, framkvæmdastjóri og eigandi gistiheimilanna Birtu og Olgu á Egilsstöðum, er einn þeirra minni rekstraraðila í ferðaþjónustu sem sjá fram á algert tekjuhrun, vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins sem gengur yfir heiminn, á ferðahegðun. Hann telur aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagslegum áhrifum faraldursins góð fyrstu skref en til að mynda dugi ekki fyrir gististaði úti á landi að fá frystingu lána til sex mánaða því þá verði aðaltekjutímabilið liðið.

„Það er gríðarleg árstíðarsveifla í ferðaþjónusturekstri, og enn frekar hjá okkur úti á landi, það er yfir sumarið sem peninganna er aflað. Það eru kannski 75% af tekjunum að koma inn frá maí til september á venjulegu ári. Þessir fimm mánuðir skipta sköpum í rekstrinum, en restina af árinu, hina sjö mánuðina ertu að taka inn 25% af tekjunum, en yfir háveturinn oft nánast ekki neitt. Það eru ofboðslega lítil tækifæri fyrir fyrirtæki úti á landi ef þau missa sumarið út til að fá einhverjar aukatekjur inn. Hér fyrir austan er til dæmis enginn vöxtur ferðamanna sem vilja njóta jóla og áramóta eins og í borginni. Svo ég myndi segja að við þyrftum að bíða fram í næsta mars og apríl til að sjá þetta fara að pikka upp aftur,“ segir Ívar.

„Ég trúi ekki öðru en að þessari frystingu á lánum, þar sem talað hefur verið um til sex mánaða, verði breytt og lengt verði í lánafyrirgreiðslunni. Því ef fyrirtæki eru í þeirri stöðu að þurfa að frysta lán og það opnast ekki aftur fyrir ferðamenn fyrr en kannski í september, þá er nú ekki mikið eftir af árinu eða næstu mánuðum til að sækja einhverjar tekjur til þess að takast á við þennan skafl.

Það er ekki hægt að ganga að því vísu að meira að segja vel rekin fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi einhvern pening í sjóðnum til að takast á við þessa frystingu í sex mánuði. Við sjáum bara að okkar stærsta ferðaþjónustufyrirtæki, Icelandair, sem þrátt fyrir að hafa mikið eigið fé, gæti einungis staðið af sér þrjá mánuði án aðgerða. Ég er ekki að sjá að staðan sé mikið öðruvísi hjá öðrum fyrirtækjum í ferðaþjónustu, nema síður sé, svo ég trúi ekki öðru en aðgerðaáætlunin sem var kynnt hafi verið fyrsta útspil og menn muni einfaldlega hugsa þetta betur. “

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.