Frá því að Nova opnaði dyrnar fyrir um hálfu ári hefur þeim tekist að ná til sín 10.000 notendum.

Samkeppni hefur aukist á íslenska fjarskiptamarkaðnum á undanförnum misserum og bera auknar auglýsingaherferðir vott um það. Nova, fjarskiptafélag í eigu alþjóðlega fjárfestingafélagsins Novator, hefur sett skemmtilegan svip á markaðinn með nýstárlegum markaðsaðferðum og öðrum nýjungum.

Frá því fyrirtækið var opnað almenningi 1.desember 2007 hefur viðskiptahópurinn vaxið ört og í lok maí sl. náði félagið þeim áfanga að skrá tíu þúsundasta viðskiptavininn í þjónustu sína. Nova hefur þanið út seglin frá því undirbúningur að stofnun þess hófst árið 2006, en þá fékk félagið tilraunaleyfi fyrir svokallaða þriðju kynslóðar (3G) þjónustu.

„Ísland var eitt af tveimur löndum í Evrópu þar sem 3G þjónusta var ekki í boði árið 2006 og markaðurinn hér var ekki að fylgja þeirri þróun sem var að eiga sér stað erlendis,“ sagði Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, í samtali við Viðskiptablaðið.“

Út frá því var ákveðið að tækifæri væri fyrir annað fyrirtæki að koma inn á markaðinn. Þetta hefur gengið eins og okkur dreymdi um og stefnan er að halda áfram á sömu braut.“ Liv segir að frá þeim tíma sem Nova kom inn á markaðinn hafi þjónustuframboð aukist, til að mynda með netþjónustu í farsíma og verð hafi einnig lækkað.