Ef tillögur landshlutanefndar fyrir Norðurland vestra ná fram að ganga verða 90 störf flutt á Norðvesturland og 40 ný opinber störf verða til í landshlutanum. Samkvæmt tillögum nefndarinnar verða nærri eitt hundrað þessara starfa í Skagafirði. Þessu greinir Fréttablaði frá í dag.

Í skýrslu landshlutanefndarinnar eru settar fram 25 tillögur um flutning opinberra starfa í landshlutann auk hugmynda um ný opinber störf sem geti orðið til í landshlutanum. Í henni kemur fram að markmið hennar sé að efla byggð á Norðurlandi vestra.

Í átta tillögum nefndarinnar er um að ræða flutning opinberra starfa inn í landshlutann frá öðrum svæðum, að mestu frá höfuðborgarsvæðinu. Þar er um tæplega 90 stöðugildi að ræða. Fram kemur í inngangi skýrslunnar að erfitt sé að meta kostnað við þær.