Viðskiptahalli Bandaríkjanna nam 109,8 milljörðum dala, eða um 14 þúsund milljarða króna, í mars síðastliðnum. Aldrei hefur viðskiptahallinn verið jafn mikill hjá landinu á einum mánuði. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Fyrir kórónuveirufaraldurinn var halli Bandaríkjanna á bilinu 40-50 milljarðar dala í hverjum og einum mánuði. Því er hallinn nú orðinn meira en tvisvar sinnum það sem hann var að jafnaði fyrir faraldur.

Innflutningur jókst um 10,3% á milli ára og nam rúmlega 350 milljörðum dala í mánuðinum. Útflutningur jókst einnig um 5,6% og nam rúmum 240 milljörðum dala.

Sjá einnig: Viðskiptahalli Bandaríkjanna aldrei meiri

Viðskiptahallinn nam 859 milljörðum dala árið 2021, sem var mesti halli sem hafði verið í Bandaríkjunum síðan mælingar hófust árið 1960. Hallinn á árinu 2022 til þessa, fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars, nemur um 290 milljörðum dala.

Mahir Rasheed, hagfræðingur hjá hagfræðideild Oxford, áætlar að viðskiptahallinn haldi áfram að vera mikill á næstu misserum.