Kostnaður vegna endurskoðunar, eftirlits með störfum Lindarhvols og gerðar skýrslu um starfsemi félagsins á vegum ríkisendurskoðanda nam 58 milljónum króna frá stofnun félagsins í apríl 2016 til ársloka 2019. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins nam kostnaður vegna þessa 14,8 milljónum króna á árinu 2019 og 21 milljónir árið 2018.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, stofnaði Lindarhvol til að ráðstafa eignum sem féllu ríkinu í skaut frá slitabúum föllnu bankanna. Starfsemi félagsins var hætt í febrúar 2018, tæpum tveimur árum eftir að félagið hóf starfsemi. Ríkisendurskoðun vann frá þeim tíma að gerð skýrslu um starfsemi félagsins sem kom út í maí síðastliðnum, ríflega tveimur árum eftir að félagið hætti starfsemi og taldi 44 blaðsíður.

Ekki liggur fyrir hvaða kostnaður féll til á þessu ári við gerð skýrslu um starfsemi félagsins.